Fara í efni
Mannlíf

Boðið að tala á hátíð náttúruljósmyndara

Ein af mörgum frábærum náttúrulífsljósmyndum þeirra hjóna, Einars og Gyðu.

Einari Guðmann og Gyðu Henningsdóttur hefur verið boðið að halda fyrirlestur á hátíð náttúruljósmyndara í Noregi, Norsk Naturfotofestival. „Þetta þykir okkur mikill heiður og viðurkenning á okkar starfi. Ekki síst vegna þess að aðrir fyrirlesarar á hátíðinni eru þekkt nöfn í heimi náttúruljósmyndara frá ýmsum heimshornum. Nöfn sem við höfum átt sem fyrirmyndir og árum saman litið upp til. Sömuleiðis vegna þess að sterk hefð er fyrir náttúruljósmyndun í Noregi, þaðan koma margir af bestu náttúruljósmyndurum heims og samtök náttúruljósmyndara eiga sér langa sögu þar í landi,“ segir Einar.

Þeim hjónum vitanlega er þetta einungis í annað skipti sem íslenskum ljósmyndurum er boðið að halda fyrirlestur á hátíðinni; hinn frábæri Ragnar Axelsson – RAX – gerði það 2015. „Það verður spennandi að hitta aðra í þessum geira og kynnast fleira fólki sem er á svipuðu nördastigi og við. Hérlendis eru engin samtök náttúruljósmyndara og því enn skemmtilegra að vera boðið á þennan einskonar „Óskar“ frænda okkar Norðmanna,“ segir Einar. Hátíðin verður 11. til 13. mars.

Norsk Naturfotofestival