Fara í efni
Mannlíf

Blöndulína, samtalið, umhverfismat og heilsufar

Opið bréf til Víðis Gíslasonar

Sæll Víðir, gleðilegt ár og kærar þakkir fyrir samtölin og samstarfið á síðustu árum. Fannst tilvalið að skella þessari kveðju til þín hér á akureyri.net þar sem mig langar aðeins til að taka upp þráð í bréfinu sem þú sendir Sunnu Jóhannesdóttur á þeim vettvangi. Það er gaman að heyra að þú varst ánægður með vinnuna í kringum Hólasandslínu 3, tenginguna á milli Akureyrar og Hólasands, og get ég tekið undir það með þér að upplýst umræða reyndist okkur þar farsæl.

Við undirbúning á Blöndulínu 3 höfum við farið sömu leið og við gerðum með Hólasandslínuna og styrktum samráðsferlið með verkefnaráði þar sem saman komu fulltrúar sveitarfélaga, náttúruverndar- og félagasamtaka, atvinnuþróunarfélaga og háskólasamfélagsins ásamt samráðsstjóra og verkefnastjórum Landsnets. Á um tveggja ára tímabili voru fundir verkefnaráðs, íbúafundir meðtaldir, 13 talsins. Vinnustofur með íbúum og landeigendum um greiningu valkosta fóru fram í byrjun árs 2020.

Allt er þetta liður í aukinni áherslu okkar hjá Landsneti á samráð við hagaðila og samfélagið í heild sinni, virkari upplýsingagjöf og opna og gagnsæja umræðu.

Áhrif á heilsufar

Við undirbúning á nýju umhverfismati línunnar var lögð aukin áhersla á samráð og samtal við hagsmunaaðila og fleiri valkostir á línuleiðum voru teknir til mats. Ákvörðun um aðalvalkost fól í sér að vega og meta nokkra meginþætti sem allir eru háðir hver öðrum. Með mati á umhverfisáhrifum eru metin þau áhrif sem framkvæmdin kemur til með að hafa á umhverfi og náttúru. Skoða þarf kostnað og hagkvæmni og tryggja að framkvæmdin uppfylli kröfur um öryggi á afhendingu rafmagns til samfélagsins. Aðalvalkostur þarf einnig að taka mið af stefnu stjórnvalda um uppbyggingu flutningskerfis raforku og lagningu raflína. Þá er horft til samfélagslegra þátta er varða atvinnulíf, atvinnuþróun og verðmæti, ásamt heilsu og öryggi íbúa í nær samfélaginu.

Það er einmitt það sem mig langar til koma betur inn á. Við hjá Landsneti skiljum vel áhyggjur fólks af heilsu og er okkur að sjálfsögðu umhugað um það og vinnum eftir þeim reglum og viðmiðum sem byggð eru á niðurstöðum greininga m.a. frá Alþjóða heilbrigðisstofnuninni (WHO) fyrir loftlínur, jarðstrengi og annan rafbúnað, t.d. tengivirki. Stofnunin hefur, byggt á nýlegri umfangsmikilli rýni („in-depth review“), ályktað að þekkt gögn staðfesti ekki tilvist heilsufræðilegra afleiðinga af því að vera útsettur fyrir rafsegulbylgjum af lágum styrk.

Hér er hægt að nálgast umhverfismatsskýrslu Blöndulínu 3 og er heilsufarsumræða í kafla 17. Við hvetjum alla til að lesa þann kafla vel því upplýst umræða skilar okkur öllum betri niðurstöðum.

Fyrir þau sem vilja fara dýpra þá bendum við á tvær samantektir frá Alþjóðaráði um varnir gegn ójónandi geislun (ICNIRP)

Guidelines https://www.icnirp.org/cms/upload/publications/ICNIRPLFgdl.pdf

Endurmat á „Guidelines“ https://www.icnirp.org/cms/upload/publications/ICNIRPlfgaps2020.pdf

Framundan eru tveir fundir um Blöndulínu 3 fyrir norðan og er fyrri fundurinn í Menningarhúsinu Miðgarði miðvikudaginn 18. janúar kl. 16.30- 18.30 og seinni fundurinn er síðan á Hótel KEA fimmtudaginn 19. janúar kl. 19.30 – 21.30.

Bestu kveðjur

Hlín Benediktsdóttir er yfirmaður undirbúnings framkvæmda hjá Landsneti