Fara í efni
Mannlíf

Blendingar milli blágrenis og sitkagrenis

Sigurður Arnarson fjallar í nýjasta pistlinum í röðinni Tré vikunnar á vef Skógræktarfélags Eyfirðinga um blendinga grenitrjáa sem sýna hvernig erfðaefni geta borist milli tegunda.

„Í náttúrulegum heimkynnum skarast útbreiðsla blágrenis og hvítgrenis og þar flæðir erfðaefni á milli tegundanna án vandræða. Hvítgreni og sitkagreni vaxa líka saman og hafa blendingar þeirra lengi verið ræktaðir á Íslandi. Í Kanada eru þeir mjög vinsælir í ræktun,“ skrifar Sigurður.

Lengst af, segir hann, var talið að blágreni og sitkagreni gætu ekki myndað náttúrulega blendinga vegna þess að tegundirnar voru ekki taldar vaxa saman. „Aftur á móti höfðu menn af öllum kynjum áttað sig á því fyrir löngu að tegundirnar gátu sem best myndað frjóa blendinga þar sem þær báðar voru ræktaðar saman. Í þessum pistli fjöllum við um þessa blendinga milli blágrenis og sitkagrenis. Annars vegar segjum við frá því að þeir hafi meðal annars orðið til á Íslandi. Hins vegar segjum við frá því að tiltölulega nýlega kom í ljós að við sérstök skilyrði geta blágreni og sitkagreni sem best vaxið svo nærri hvert öðru að erfðaefnið getur flætt á milli þeirra, rétt eins og hjá blágreni og hvítgreni.“

Meira hér: Blásitkagreni