Fara í efni
Mannlíf

Bjarki loks í sól og sumaryl á „réttum“ stað

Flokkur fólksins heldur sumarfagnað í Lystigarðinum á Akureyri í dag. Slíkar samkomur þykja sjaldnast verulega fréttnæmar en það verður að segjast eins og er að lokaatriði dagskrárinnar er þess eðlis að samkoman verður talin söguleg!

Fagnaðurinn hefst klukkan 15.00. Brynjólfur Ingvarsson, bæjarfulltrúi flokksins á Akureyri, fer með gamanmál, síðan slær Inga Sæland, formaður flokksins, á létta strengi og syngur nokkur lög. Alþingismaður flokksins í Norðausturkjördæmi, sá kunni Stuðmaður Jakob Frímann Magnússon, leikur því næst á fimbulorgan og stjórnar fjöldasöng og Katrín Sif Árnadóttir varaþingmaður syngur valin lög.

Það verður svo enginn annar en Bjarki Tryggvason sem slær botninn í dagskrána með því að syngja Í sól og sumaryl, þann gamla, góða smell. Gylfi Ægisson samdi lagið einmitt í sól og sumaryl í Lystigarðinum fyrir margt löngu eins og frægt er og Bjarki söng upprunalegu útgáfuna með hljómsveit Ingimars Eydal fyrir nákvæmlega hálfri öld - lagið var gefið út árið 1972. Bjarki hefur án efa sungið lagið mörg hundruð sinnum með hljómsveitinni á dansleikjum á sínum tíma en aldrei flutt það í Lystigarðinum, eftir því sem næst verður komist.

Smellið hér til að heyra Bjarka syngja lagið á sínum tíma.