Fara í efni
Mannlíf

Birkir hefur opnað veitingastað í Mílanó

Birkir Bjarnason fyrir landsleik, og auglýsing um veitingastaðinn hans í Mílanó!

Birkir Bjarnason, landsliðsfyrirliði í knattspyrnu, sem leikur nú með Adana Demirspor í Tyrklandi, steig óvænt en skemmtilegt skref í gær þegar veitingastaður í eigu hans var opnaður í borginni Mílanó á Ítalíu!

Staðurinn heitir Le Frit C'est Chic og þar er eingöngu sjávarfang í boði. Úrvals fiskmeti, sem nánast allt er veitt í Adríahafinu af sömu fjölskyldunni, að sögn Birkis; fólki sem hann kynntist þegar hann fór fyrst til Ítalíu til að leika með liði Pescara í suðurhluta landsins fyrir tæpum áratug. Nafn veitingastaðarins er vissulega franskt, en staðurinn eins ítalskur og hægt er!

Gamall draumur

Birkir segist lengi hafa verið mikill áhugamaður um mat. „Ég hef reyndar hugsað um það alveg síðan ég var unglingur að mig langaði einhvern tíma að eignast veitingastað. Ég er mjög hrifinn af góðum mat – sérstaklega ítölskum,“ sagði hann í samtali við Akureyri.net í gær.

„Þegar ég kom fyrst til Ítalíu og spilaði með Pescara kynntist ég fiskimannafjölskyldu sem er líka í veitingarekstri. Við erum góðir vinir og á sínum tíma grínuðumst við með að við myndum einhvern tíma opna veitingastað saman. Svo þróuðust hlutirnir í þessa átt!“

Fjölskyldan rekur einn veitingastað sjálf í grennd við Pescara, en fleiri staðir staðir með sama nafni eru orðnir að veruleika; þeir eru í eigu annarra en reknir með sérleyfi frá fjölskyldunni. Þannig er fyrirkomulagið hjá Birki. „Ég á staðinn í Mílanó en kaupi allan fisk af fjölskyldunni.“

Loka tímabundið og flytja til Mílanó!

Birkir og vinir hans hafa unnið að þróun staðarins síðustu 15 mánuði að hans sögn. Þau hafi langað mikið til þess að opna stað sem þennan í norðurhluta landsins og sá draumur varð að veruleika í gær, á afmælisdegi föður Birkis, knattspyrnukappans fyrrverandi, Bjarna Sveinbjörnssonar.

Birkir var í vinnunni suður í Tyrklandi þegar Akureyri.net ræddi við hann í gær. „Ég kemst ekki til Mílanó fyrr en í sumar, en ítalska fjölskyldan sér um allt í fyrstu; þau lokuðu staðnum sínum suður við Pescara tímabundið og eru flutt til Mílanó, þar sem þau ætla að vera í nokkra mánuði til þess að koma mínum stað almennilega í gang! Síðan ráðum við nýja kokka sem þau munu kenna hvernig við viljum hafa hlutina.“

Birkir var afar spenntur í gær og þótti í raun leitt að geta ekki verið viðstaddur. „Mér finnst mjög spennandi að prófa eitthvað nýtt, eitthvað allt annað en maður er vanur. Það verður gaman að sjá hvernig þetta þróast.“

Framtíð og fjárfestingar

Fram kom í fréttum ekki alls fyrir löngu að Birkir hefði fjárfest í Skógarböðunum sem fljótlega verða opnað í Vaðlaheiðinni. „Ég hef hugsað um það í mjög mörg ár hvað ég myndi taka mér fyrir hendur í framtíðinni, eftir ég hætti að spila fótbolta,“ segir hann, og kveðst viss um að hann muni sinna fjárfestingum og einhvers konar rekstri. Það sé spennandi. Hvort hann tengist fótboltanum áfram á einhvern hátt eftir að keppnisskórnir fara á hilluna sé enn óljóst. „Það kemur bara í ljós.“