Fara í efni
Mannlíf

Bílferð varð að þúsund síðna bók

Bernharð Haraldsson, fyrrverandi skólameistari Verkmenntaskólans á Akureyri hefur sent frá sér bókina Skriðuhreppur hinn forni, bændur og búalið á 19. öld. „Þar fjallar hann um fólkið í Skriðuhreppi á 19. öld, skyggnist inn í heim, sem okkur er horfinn. Bæjaröðin hefst við Syðri-Bægisá, ysta bæ í Öxnadal og lýkur við Dunhagakot í Hörgárdal. Alls eru bæirnir 64 talsins og eru margir þeirra farnir í eyði á okkar dögum,“ segir í kynningu frá Völuspá, sem gefur bókina út. Útgáfudagur var 1. febrúar, 83. afmælisdagur höfundar.

Í bókinni eru raktir ábúendur á hverjum bæ, sagt frá uppruna þeirra, og gerð grein fyrir afkomu og efnahag. Svo eru fjölskylduhagir teknir til frekari skoðunar, afkomendunum fylgt eftir, sagt frá kunnáttu og menntun og vegferð þeirra eftir því sem kostur er. Skyldleika fólks eru gerð nokkur skil. Litið er á mannlegan breyskleika bæði er tekur til lausaleiksbarna og gripdeilda. Vinnufólk fær sína umfjöllun svo og fátæklingarnir, margir þeirra aldnir og veikir, umkomulítil börn, allt er þetta nefnt einu nafni hreppsómagar. Þá segir Bernharð frá fyrsta póstráni sögunnar og stórtækasta sauðaþjófnaði fyrr og síðar í Eyjafjarðarsýslu.

Örlagarík bílferð

Ritið á sér langan aðdraganda; segja má að fyrsta fræinu hafi verið sáð á öndverðum áttunda áratug aldarinnar sem leið. Þau hjón, Bernharð og Ragnheiður Hansdóttir, fóru til Reykjavíkur að taka á móti draumabílnum. Ragnheiður varð eftir hjá foreldrum sínum með barnungan son þeirra Bernharðs en hann ók norður. „Leið mín lá um Skagafjörðinn og þegar Héraðsvötnin voru að baki sá ég roskinn mann standa við vegarbrún eins og hann væri á höttunum eftir fari. Ég nam staðar og bauð honum far, en hann ætlaði að Fremri Kotum, þar væru bændur með lambfé og hann ætlaði að hjálpa til.“

Farþeginn, Stefán Jónsson, kynnti sig og spurði hverra manna Bernharð væri. Stefán þekkti hvorki til á Flatey á Skjálfanda né Norðfirði en þegar hann komst að því að móðir Bernharðs ætti ættir að rekja í Hörgárdalinn, og væri Sigursteinsdóttir, lifnaði yfir honum. Stefán rakti ætt  sína til Sigursteins afa, bílastjórans. „Spurði í leiðinni hvort ég kannaðist ekki við hinn eða þennan, sem ég varð því miður oftast að svara neitandi. Setti nú að mér svolitla sút. Ég hafði aflað mér menntunar til kennslu og þekkti svo lítið sem ekkert til forfeðra minna!“

Bílstjóranum var öllum lokið þegar Stefán þekkti einnig vel til ættar eiginkonunnar, Ragnheiðar. Strax um veturinn hóf Bernharð að grúska, æfði sig í að lesa kirkjubækur, eins og hann orðar það, skrifaði svolítið hjá sér og áttaði sig á því hve skemmtilegt var að rekja saman fólk og leita að lífsgöngu þess.

Hugðist setja saman „dálitla bók“ 

Eftir að Bernharð lét af starfi skólameistara Verkmenntaskólans á Akureyri um aldamótin tók hann til við skriftir, einn eða í félagi við aðra og  afraksturinn er nokkrar bækur. Meðan á þeirri vinnu stóð datt honum í hug að setja saman „dálitla bók“ um íbúa í Skriðuhreppi hinum forna á 19. öld og hún er nú orðin að veruleika – rúmlega eitt þúsund síður í tveimur bindum!

Við lestur kirkjubóka kemur ýmisleg athyglisvert í ljós, segir Bernharð og nefnir dæmi: langalangamma hans var ógift vinnukona á bæ einum í Myrkársókn. Þar var strákur, rétt rúmlega fermdur sem gerði vinnukonunni barn. Hún virðist hafa verið heitbundin ungum pilti í sveitinni „því hún fór til hans um vorið, eignaðist son á miðju sumri og giftist svo kærastanum um haustið. Þau bjuggu góðu búi um langan aldur og eignuðust saman 12 börn og fékk frumburður hennar nafn stjúpföður síns og þar með voru börnin orðin þrettán.“ Vitað var þá og er enn, að svona var þetta, segir Bernharð, og því skrifaði Myrkárklerkur í kirkjubókina, að stráksi væri „hálfskilgetinn“.