Fara í efni
Mannlíf

Bikarslagur Þórs og meistara Víkings í dag

Ion Perello með boltann í deildarleiknum gegn Ægi á föstudaginn var. Ion skoraði gegn Leikni í síðasta bikarleik. Bjarni Guðjón Brynjólfsson, í baksýn, skoraði gegn KF í 2. umferð keppninnar. Ljósmynd: Skapti Hallgrímsson

Þórsarar ráðast ekki á garðinn þar sem hann er lægstur í dag þegar þeir spreyta sig í átta liða úrslitum Mjólkurbikarkeppninnar, bikarkeppni Knattspyrnusambands Íslands.  Það eru bikarmeistarar Víkings – besta lið landsins um þessar mundir – sem koma í heimsókn á Þórsvöllinn. Leikurinn hefst klukkan 17.30.

Víkingar eru efstir í Bestu deildinni, efstu deild Íslandsmótsins, og hafa unnið bikarkeppnina í þrjú síðustu skipti; 2019, 2021 og 2022. Keppninni lauk ekki árið 2020 vegna Covid faraldursins.

Þórsarar unnu KF 6:0 í 2. umferð keppninnar í ár, slógu Kára út eftir markalaust jafntefli og vítaspyrnukeppni í 32-liða úrslitum og síðan  sigruðu loks Reykjavíkur-Leikni 3:1 í 16-liða úrslitum.

Bikarmeistararnir hófu titilvörnina með 6:2 sigri á Magna á heimavelli og unnu Gróttu 2:1 í 16-liða úrslitum, einnig á heimavelli.

Þórsarar fagna síðasta markinu í 3:1 sigri á Víkingi síðast þegar liðin mættust í bikarkeppninni, sumarið 2011. Ljósmynd: Skapti Hallgrímsson

Þór og Víkingur hafa fimm sinnum mæst í bikarkeppni KSÍ. Síðast sumarið 2011 þegar Þórsarar unnu 3:1 á heimavelli og komust í frægan bikarúrslitaleik. Þórsarar töpuðu úrslitaleiknum 2:0 fyrir KR en höfðu sannarlega ekki heppnina með sér; áttu fimm skot í stöng eða slá!

Viðureignir Þórs og Víkings í bikarkeppninni til þessa:

  • 1988 – Þór – Víkingur 1:2
  • 1994 – Víkingur – Þór 4:6
  • 2000 – Þór – Víkingur 1:2
  • 2003 – Þór – Víkingur 0:2
  • 2011 – Þór – Víkingur 3:1

Úrklippa úr Akureyrarblaðinu Degi eftir bikarleik Víkings og Þórs 1994. Úrslitin að ofan eru sem sagt ekki prentvilla! Bjarni Sveinbjörnsson gerði þrjú mörk í fyrri hálfleik og Lárus Orri Sigurðsson eitt og Þór var 4:0 yfir í hálfleik! Guðmundur Benediktsson og Júlíus Tryggvason skoruðu fyrir Þór í seinni hálfleik. 

  • Þór og Víkingar mættust síðast í mars 2021 í Lengjubikarkeppninni. Leikið var í Boganum og gestirnir unnu 5:0.
  • Liðin mættust síðast í deildarkeppni sumarið 2014, þegar efsta deild var nefnd eftir drykknum Pepsi. Þá sigruðu Víkingar 1:0 á Þórsvellinum.