Fara í efni
Mannlíf

Barnaþing nemenda Naustaskóla

Ljósmyndir: Skapti Hallgrímsson

Barnaþing var haldið í íþróttahúsi Naustaskóla í vikunni, í tilefni af Alþjóðlegum degi barna sem var 20. nóvember.

Nemendur í 5.-10. bekk tóku þátt í þinginu og gengu umræður afskaplega vel, að sögn Bryndísar Björnsdóttur skólastjóra. Hver nemandi tók þátt í fimm  hringborðsumræðum, málefni á þinginu snertu skólastarfið í heild sinni allt frá samskiptum yfir í skólalóðina. „Nemendur voru virkir og verður spennandi að vinna úr niðurstöðum þingsins. Dagana á undan voru þemadagar helgaðir Barnasáttmálanum þar sem nemendur unnu margvísleg verkefni tengd Barnasáttmála Sameinuðu þjóðanna,“ segir Bryndís.

Skv 12. grein Barnasáttmálans segir að „börn eigi rétt á því að tjá sig frjálslega um öll málefni sem hafa áhrif í líf þeirra“ og skv. 13. grein Barnasáttmálans eiga börn rétt á því að deila skoðunum sínum. Skólinn er fyrir nemendur og því eðlilegt að nemendur skólans hafi margt um sinn skóla að segja, segir Bryndís Björnsdóttir.