Fara í efni
Mannlíf

Átakanleg dvöl en lærdómsrík í Kenía

Malla með 10 vikna gamla stúlku í fanginu sem nýtur umönnunar á heimilinu. Móðir hennar er mjög andlega veik eftir hræðilegt kynferðisofbeldi. Ljósmyndir: Málfríður Stefanía Þórðardóttir

Málfríður Þórðardóttir, einnig þekkt sem Malla ljósmóðir, hefur dvalið í Kenía undanfarnar vikur í sjálfboðastarfi á heimili fyrir barnungar mæður. Flestar kvennanna sem þar búa hafa orðið fyrir kynferðislegu ofbeldi en heimilið gefur þeim kost á menntun og uppbyggingu svo þær geti tekist á við lífið á nýjan leik.

„Ástæðan fyrir dvöl minni hér er sú að ég hef lengi fylgst með Önnu Þóru Baldvinsdótttur á Snapchat, hún rekur heimilið Haven Rescue Home (HRH) í Kiambu í Kenía. Heimilið er fyrir barnungar stúlkur sem eru annað hvort ófrískar eða eru með ung börn. Ég sendi Önnu skilaboð og spurði hvort hún hefði ekki not fyrir hjúkrunarfræðing og ljósmóður, sem hún hafði, svo ég dreif mig út. Með í för er vinkona mín, Lilja Möller, sem er iðjuþjálfi. Hennar menntun nýtist mjög vel í því að styðja stelpurnar og finna verkefni á heimilinu,“ segir Malla þegar Akureyri. net hafði samband við hana til Kenía.

Vinkonurnar Malla og Lilja héldu á framandi slóðir til að leggja hönd á plóg á heimili fyrir barnungar mæður í Kenía. Á páskadag fóru þær í messu þar sem tvö börn af heimilinu voru skírð.

Ljót og svæsin mál

Malla segir að dvölin ytra hafi verið bæði átakanleg og lærdómsrík. Á heimilinu, sem stofnað var árið 2017 af Önnu og samstarfskonu hennar, er pláss fyrir 20 stúlkur sem koma þangað í gegnum barnaverndaryfirvöld. Þá er þar líka rekinn leikskóli fyrir börn í nágrenninu. „Stúlkurnar sem hingað koma hafa allar orðið fyrir einhverskonar ofbeldi. Oftast kynferðislegu og oft mjög svæsnu. Við erum að tala um að þær koma hingað ófrískar ýmist eftir feður, stjúpfeður, frændur eða nágranna. Það eru alls konar sögur sem fylgja þeim. Þetta eru yfirleitt mjög ljót mál. Þær eru í andlegu ójafnvægi og skemmdar af þessu ofbeldi sem þær hafa orðið fyrir,“ segir Malla.

Börn að leik fyrir utan heimilið Haven Rescue Home (HRH) í Kiambu í Kenía. 

12 ára móðir

Yngsta stúlkan sem nú dvelur á heimilinu er nýorðin 12 ára og er hún gengin 30 vikur. „Ég gerði mæðraskoðun á henni þegar hún kom hingað og ég met hana gengna u.m.þ. b 30 vikur, en hún gæti verið komin lengra. Þar sem hún er svo ung þá erum við að vinna í því að hún fái að fara í keisaraskurð. Það segir sig sjálft að líkami hennar hefur ekki tekið út nægan þroska til þess að geta gengið í gegnum fæðingu. Það er ekki sjálfgefið að það gangi í gegn. Sennilega þurfum við að fara með hana á einkasjúkrahús og borga fyrir þá meðferð sem hún þarf og þurfum líklega að safna pening fyrir því,“ segir Malla. Þetta dæmi er bara eitt af mörgum sem sýnir í hverju starfsemi heimilisins er fólgin. „Svo er oft ekkert vitað hverjir barnsfeðurnir eru svo það þarf að taka DNA sýni sem fer svo í farveg í kerfinu.“

Frá vinstri: Anna Þóra stofnandi HRH, Lilja, Hilda félagsráðgjafi og Malla. Heimilið er alfarið rekið á styrkjum.

Slæmar afleiðingar af grófu ofbeldi

Misjafnt er hversu lengi stúlkurnar dvelja á Haven Rescue Home. Sú sem dvalið hefur lengst á heimilinu hefur verið þar í þrjú ár. „Stelpurnar sem hér dvelja eru allar studdar til náms og fá aðstoð til þess að geta sinnt bæði námi og barni. Þær fá tækifæri til að ná sér í einhverskonar iðnmenntun. Þær læra að sauma, að flétta hár eða fara í annað grunnnám sem hjálpar þeim að verða sjálfbjarga. Þá þurfa þær ekki að fara til baka í þær aðstæður sem þær komu úr þar sem þær voru háðar karlmönnum eða einhverjum fjölskyldumeðlimum og voru jafnvel kynlífsþrælar,“ segir Malla og heldur áfram; „Ein stúlka hér er mjög illa sett. Hún var lokuð inni sem kynlífsþræll. Hún kom hingað ófrísk og fæddi barnið hér. Barnið er núna 2 mánaða gamalt og braggast vel en móðirin er að glíma við mjög alvarlegt fæðingarþunglyndi og áfallastreituröskun. Hún er núna á geðdeild og barnið í okkar umsjón. Þetta er náttúrulega bara afleiðing af grófu ofbeldi.“

Lilja Möller iðjuþjálfi og Málfríður Stefanía Þórðardóttir ljósmóðir í höfuðborginni Nairobi.

Stefnt að sjálfbærni

Malla segir að ekki sé hægt að ímynda sér aðstæðurnar sem þessar stúlkur eru að koma úr, þær séu oft svo hörmulegar. „En þrátt fyrir það eru þessar stelpur skemmtilegar og glaðar að eðlisfari. Það er auðvelt að gleðja þær og þær eru mjög þakklátar fyrir allt sem er gert fyrir þær, hversu lítið sem það er. Maður getur lært mikið af þeim, og þá ekki síst áttað sig á því hvað við höfum það óskaplega gott heima. Til dæmis með allt okkar hreina vatn. Hér þarf að sjóða allt vatn í uppvask og bara köld sturta í boði. Undanfarið höfum við líka verið vatnslausar. Það fór í sundur lögn þannig að það hefur þurft að bera vatn langar leiðir.“

Mánaðardvöl þeirra Lilju og Möllu í Kenía er senn á enda og þær koma heim reynslunni ríkari og sáttar við að hafa geta lagt hönd á plóg. „Starfssemi heimilisins er mjög flott en það er eingöngu rekið á styrkjum, aðallega frá fylgjendum Önnu Þóru á Snapchat. Starfsfólkið er reglulega útsjónarsamt og það er farið rosalega vel með peningana hér. Anna Þóra er að byggja heimilið upp hægt og rólega en markmiðið er að gera það sjálfbært. Í því sambandi er hún að kaupa land þar sem hægt er að rækta korn og maís. Þá eru hér hænur svo heimilið fær egg,“ segir Malla. Verkefnin framundan hjá Haven Rescue Home eru því næg og á stóru heimili eru mörg handtök í erfiðum aðstæðum. „Hér vantar alltaf peninga, föt, leikföng og annað. Stúlkurnar eiga t.d. engar snyrtivörur, við gáfum þeim sápur sem við tókum með frá Íslandi sem og föt og annað sem skorti, en það skortir mjög margt hér,“ segir Malla að lokum og bendir áhugasömum á styrktarfélag heimilisins á Facebook sem heitir Styrktarsíða HRH – https://www.facebook.com/styrktarfelaghrh