Fara í efni
Mannlíf

Aron Gísli og Unnur Stella sköruðu fram úr

Sigurvegararnir: Aron Gísli Helgason frá Brút og Unnur Stella Níelsdóttir frá Múlabergi.
Sigurvegararnir: Aron Gísli Helgason frá Brút og Unnur Stella Níelsdóttir frá Múlabergi.

Aron Gísli Helgason, matreiðslumaður á veitingastaðnum Brút í Reykjavík, og Unnur Stella Níelsdóttir, barþjónn frá Múlabergi á Akureyri, sigruðu í matreiðslu- og kokteilakeppninni Arctic Challenge sem var haldin í fyrsta skipti á mánudaginn á veitingastaðnum Strikinu á Akureyri.

Ída Irene Oddsdóttir, viðburðarstjóri Arctic Challenge, segir að keppninni hafi fyrst og fremst verið komið á laggirnar í því skyni að auðvelda fólki í veitingageiranum á Norðurlandi að sýna hvað í því býr í keppni. Arctic Challenge sé þó öllum opin. Hingað til hafi Norðlendingum ekki gefist tækifæri á að taka þátt í keppni nema gera sér ferð suður yfir heiðar og því vilji aðstandendur Arctic Challenge breyta. Stefnt sé að því að stækka viðburðinn þannig að keppendur annars staðar af landinu og erlendis frá taki þátt.

  • Sigurvegarinn í matreiðsluhlutanum – Chef keppninni, Aron Gísli, vinnur á Brút í Reykjavík eins og fyrr sagði en áður vann hann árum saman á Rub 23 á Akureyri. Jón Birgir Tómasson frá Múlabergi varð í öðru sæti og í þriðja sæti Guðmundur Sverrisson, einnig frá Múlabergi.

Skilyrði fyrir þátttöku í kokkakeppninni var að keppandi hefði lokið sveinsprófi eða væri búinn með námssamning. Keppandi skilaði inn köldum forrétti með fyrirfram ákveðnu hráefni og heitum aðalrétti, einnig með fyrirfram ákveðnu hráefni, með 15 mínútna millibili.

Dómarar voru fjórir. Þrír sáu um blindsmakk og dæmdu m.a bragð, áferð og vinnu. Sá fjórði var eldhúsdómari, sem dæmdi m.a frágang, passaði að klæðnaður var viðeigandi og þess háttar.

Í dómnefnd voru: Haraldur Már Pétursson, eigandi Salatsjoppunnar, Haukur Gröndal, forstöðumaður eldhúss Sjúkrahússins á Akureyri, Snæbjörn Kristjánsson, forstöðumaður eldhússins á Hrafnagili og Kristinn Frímann Jakobsson, sem var eldhúsdómari.

Þrír efstu í kokkakeppninni. Frá vinstri: Guðmundur Sverrisson, Aron Gísli Helgason og Jón Birgir Tómasson.

  • Unnur Stella Níelsdóttir frá Múlabergi sigraði í kokteilahlutanum – Mixologist keppninni, eins og hún kallaðist, með drykknum Rabbi’s Blues. Þórkatla Eggerz Tinnudóttir frá R5 bar endaði í öðru sæti og Ýmir Valsson frá Múlabergi í þriðja sæti.

Í dómnefnd voru Jónína Björg Helgadóttir, eigandi menningar- og veitingastaðarins Majó, Þorleifur „Tolli“ Sigurbjörnsson, Sommelier, og Sigmar Örn Ingólfsson, framreiðslumeistari.

Barþjónarnir þurftu að blanda kokteilinn fyrir framan dómnefnd, sem ræddi við hvern keppanda fyrir sig til þess að fá hugmynd um hver hugsunin væri bak við hvern kokteil.

Dómarar dæmdu eftir bragði, lykt, útliti, þema, vinnubrögðum og hreinlæti. Hver keppandi á bar fékk 10 mínútur til þess að blanda og skila frá sér tvöfaldri uppskrift fyrir framan dómnefnd. Síðan hafði dómnefnd 5 mínútur til að tala sín á milli og gefa einkunn.

„Keppnin fór fram úr öllum væntingum, hún var frábær og stemningin sýndi vel að þetta er eitthvað sem fólk í veitingageiranum hér hefur klárlega áhuga á og vill eiga þennan möguleika. Hér hefur fólkið aðstöðu til að æfa sig og undirbúa án þess að ferðast og gista einhverstaðar sem gerir því oft erfiðara fyrir,“ sagði Ída Irene Oddsdóttir, viðburðarstjóri Arctic Challenge, við Akureyri.net.

Níu keppendur tóku þátt í Arctic Chef, matreiðslukeppninni, og átta í Arctic Mixologist, kokteilakeppni.

Þrjú efstu í kokteilakeppninni. Frá vinstri: Þórkatla Eggerz Tinnudóttir, Unnur Stella Níelsdóttir og Ýmir Valsson

Sigurkokteill Unnar Stellu - Rabbi’s Blues. 

Réttir sigurvegarans, Arons Gísla Helgasonar.

Réttir Jóns Birgis Tómassonar sem varð annar í keppninni.

Réttir Guðmundar Sverrissonar sem varð í þriðja sæti.