Fara í efni
Mannlíf

Arnór Bliki: hús dagsins er Norðurgata 11

Arnór Bliki Hallmundsson fjallar í dag um Norðurgötu 11 í pistlaröðinni Hús dagsins; hús sem kom við sögu sumarið 1880 þegar haldin var mikil búfjársýning á Oddeyri. 

„Um var að ræða sannkallaðan stórviðburð þar sem sýndar voru, auk búfjár, hinar ýmsar afurðir úr ull auk hannyrða og handverks, einnig tæki tengd búfjárhaldi og tóvinnu. Að sjálfsögðu voru einnig skemmtiatriði söngur og orgelleikur, glíma og dans frameftir kvöldi. Þá fluttu ræður m.a. Davíð Guðmundsson prófastur, sem setti hátíðina og Arnljótur Ólafsson auk þess sem flutt voru kvæði sem m.a. Matthías Jochumsson og fleiri höfðu samið sérstaklega af þessu tilefni,“ segir í blaðinu Norðlingi í júní þetta sumar. 

Sýningarsvæðið var allt prýtt fánum og ýmsu skrauti og voru reist þrjú tjöld undir hluta herlegheitanna, þar sem m.a. voru veitingar. Auk þess var leigt sýningarhús. Arnór Bliki grípur niður í frásögn Norðlings: Sýningarnefndin hafði búizt hið bezta við á sjálfum sýningarstaðnum, og leigt tvíloptað [svo] hús, er verið er að byggja á Oddeyri; voru hannyrðir, vefnaður, prjónles, smíðisgripir, listaverk, smærri verkfæri og varningur sýnt þar á fyrsta sal.

Umrætt hús stendur enn og er Norðurgata 11 og er það elsta við götuna.

Smellið hér til að lesa pistil Arnórs Blika