Fara í efni
Mannlíf

Ari frestar í Hofi – er veðurtepptur á Selfossi

Mynd sem Ari birti á Facebook síðu sinni nú undir kvöld. „Sjáumst glöð og kát 21. janúar - allt er gott í Hofi!“ skrifar grínistinn.

Uppselt var á tvær sýningar grínistans Ara Eldjárn í Hofi í kvöld, en hann hefur neyðst til að fresta þeim þar til 21. janúar. Leiðindaveður er suður á landi og raunar svo slæmt að Ari er veðurtepptur á Selfossi, þar sem hann bauð upp á Áramótaskop sitt í gærkvöldi. Allt var reynt til að koma grínistanum til Reykjavíkur svo hann gæti flogið norður en allt kom fyrir ekki!

„Því miður hef ég verið veðurtepptur á Selfossi síðan í gærkvöldi og því er útséð með að komast norður í dag. Áramótaskopi í Hofi hefur því verið frestað til 21. janúar og mun breytast í Sárabótaskop,“ skrifar Ari á Facebook síðu sína fyrir um klukkustund.

Þeim sem vilja fá endurgreiðslu er bent á að hafa samband beint við miðasöluna í Hofi. Hún er opin alla virka daga kl 13-16. Hægt er að hringja í 4501000 eða senda tölvupóst á midasala@mak.is.