Fara í efni
Mannlíf

Anna Guðný er komin í mark í Mongólíu

Anna Guðný Baldursdóttir, hestakona úr Bárðardal, komin í mark í kappreiðunum í Mongólíu. Mynd: Kathy Gabriel / Mongol derby

Ævintýrakonan Anna Guðný Baldursdóttir er komin í mark í kappreiðunum Mongol derby í Mongólíu. Hún endaði í 19. sæti, en keppninni er ekki lokið. Aðeins 24 knapar hafa lokið keppni og fjórir eru enn á síðustu kílómetunum. 14 knapar af 46 sem hófu keppni þurftu að hætta af ýmsum ástæðum, en Heimsmetabók Guiness – Guiness World Records – hefur staðfest að kappreiðarnar eru þær erfiðustu og lengstu í heimi. Allir eru þó heilir heilsu, eftir því sem blaðamaður kemst næst.

Knapar höfðu 10 daga til þess að klára 1000 kílómetra leið um hrjóstrugt mongólskt landslag. Í viðtali við Akureyri.net áður en Anna hélt af stað í þessa ævintýraferð, sagðist hún hafa tvö takmörk fyrir keppnina – að klára og fá ekki refsingu frá dýralækni. Aðalmarkmiðinu, að klára, náði hún með stæl í nótt. Hún lenti hinsvegar í því um miðbik mótsins að hestur hennar mældist með hjartslátt yfir mörkum, sem þýddi að hún varð einu sinni að bíða í 2 klst sem refsingu fyrir það. 

Við bíðum spennt eftir því að fá að heyra hljóðið í Önnu eftir keppnina. Hún hefur getað haldið góðum dampi í að uppfæra Instagram reikning sinn - þannig að áhugasöm um það, hvernig keppninni vatt fram, geta skoðað hann.

 

Anna kemur hér í mark með góðu fólki; Frank Furlong, Tom Kompier og Florian Senger-Weiss. Mynd: Katy Gabriel / Mongol derby

Sigurvegarar kappreiðanna voru fjórir í fyrsta skipti í sögu keppninnar, en þau fylgdust að yfir endalínuna. Anna Boden (UK), Khalifia Al Hamed (UAE), Eissa Al Khayari (UAE) og Michael Pollard (USA). Mynd: Kathy Gabriel / Mongol derby