Fara í efni
Mannlíf

Amtsbókasafnið á 196 ára afmæli í dag!

Húsið við Brekkugötu í byggingu. Það var tekið í notkun í nóvember árið 1968. Mynd af vef safnsins.

Í dag eru 196 ár síðan Amtsbókasafnið á Akureyri var stofnað. Safnið var sett á laggirnar árið 1827 og er elsta stofnun Akureyrarbæjar. Sveitarfélagið eignast safnið þó ekki fyrr en árið 1905.

„Segja má að saga safnsins hefjist árið 1791 þegar Stefán Þórarinsson amtmaður stofnaði Hið norðlenska lestrarfélag. Það félag lagðist af en Grímur Jónsson, amtmaður á Möðruvöllum í Hörgárdal, tók við keflinu og stofnaði Eyfirska lesfélagið árið 1825. Tveimur árum síðar, árið 1827, var Amtsbókasafnið formlega stofnað,“ segir í ítarlegri frásögn um sögu safnsins á vef þess.

„Eftir að hafa verið á húsnæðishrakningi í 140 ár fékk safnið loks viðunandi húsnæði við Brekkugötu 17 sem síðan hefur stækkað og er allt hið glæsilegasta,“ eins og segir á vef safnsins. Það var tekið í notkun í nóvember árið 1968 og glæsileg viðbygging í mars 2004.

„Frá því að Amtsbókasafnið komst í viðunandi húsnæði hefur starfsemin vaxið og dafnað jafnt og þétt. Viðbyggingin flotta var tekin í notkun í mars 2004 og gerir alla aðstöðu miklu betri, hvort sem um er að ræða starfsmenn eða gesti,“ segir í afmælisfrétt á vef safnsins.

„Sýningar, fyrirlestrar, námskeið og klúbbar eru stór hluti af starfinu sem er auðvitað miklu meira en að lána bara út safnefni. Reyndar hefur safnið þróast ört og við erum afar stolt af því. Þetta er safnið okkar allra.

Það má líka taka það fram hér að safnahúsið hýsir einnig kaffihús og Héraðsskjalasafnið á Akureyri.“

  • Smellið hér til að sjá fróðlega heimildamynd um Amtsbókasafnið
  • Smellið hér til að lesa ítarlega umfjöllun um sögu Amtsbókasafnsins