„Amma var mín helsta klappstýra í listinni“

Við tjaldstæðið á Hauganesi eru mögulega ævintýralegustu náðhús norðan Vatnajökuls, og eflaust þó víðar væri leitað. Landslag og persónur frá víkingaöld eru listilega málaðar á veggina, og einnig er hönnunin á náðhúsunum í anda fornrar byggingarlistar. Það er hinn 17 ára gamli Oddur Atli Reykjalín Guðmundsson sem hefur málað listaverkin, og blaðamaður Akureyri.net hitti hann á Hauganesi.
„Ég byrjaði að mála hérna fyrir þremur árum, þegar ég var 13 ára, og hef verið að koma í eina viku á hverju sumri til að bæta við,“ segir Oddur, en það er afabróðir hans, Elvar Reykjalín, sem rekur tjaldstæðið. Elvar tók eftir listrænum hæfileikum ungs frænda síns og nefndi það í svipinn, hvort að það væri ekki sniðugt að hann gæti málað eitthvað á náðhúsin þegar þau væru klár.
Ef það væri ekki fyrir nýtískuleg hjólhýsi nútíma Íslendinga í baksýn, þá væri hægt að ímynda sér að framundan væri víkingaþorp. Mynd: RH
Amma var aðal klappstýran
„Amma mín ýtti svolítið á eftir því, að ég tæki Elvar á orðinu og málaði, en hún var alltaf mín helsta klappstýra þegar kemur að listinni,“ segir Oddur, og afi og stóri bróðir Elvars, Vigfús Jóhannesson, afi Ninni, var hrifinn af hugmyndinni líka. Amma hans, Svanhildur Árnadóttir, Svansa amma, lést svo skyndilega eftir óvænt veikindi á síðasta ári. Það var mikið áfall fyrir Odd og fjölskylduna alla.
2021 var fyrsta sumarið sem Oddur málaði á Hauganesi, en amma var aldrei langt undan með gamanmál, pepp og fyrirsætustörf. Myndir úr einkasafni.
Amma er alltaf með í listinni
Fyrstu tvö skiptin sem Oddur málaði á Hauganesi, var amma Svansa með í för og tók meðal annars að sér að sitja fyrir þegar Oddur gerði útlínur víkinganna á veggjunum. „Hún sat hérna með mér og spjallaði við mig eða gestina á tjaldstæðinu á meðan ég málaði,“ rifjar Oddur upp. „Eftir að hún dó, var ég hræddur um að það yrði ekkert eins að koma aftur núna í sumar án hennar. En hún beið mín bara hérna og hún heldur þeim titli, að vera mesta klappstýra lífs míns. Mér finnst ég alltaf finna sterkt fyrir henni, einhverjum kommentum og bröndurum, sérstaklega þegar ég að skapa eitthvað.“
Fatnaðurinn og aukahlutir persónanna á veggjunum eru held ég nokkuð nærri lagi
„Ég á ábyggilega eftir að finna eitthvað meira til þess að mála, þó að flestir veggirnir hérna séu tilbúnir,“ segir Oddur, aðspurður um það, hvort hann sé búinn með verkefnið. „Það er svolítið víkingaþema hjá Elvari frænda, til dæmis er Baccalá, veitingastaðurinn á Hauganesi með svona víkingaskipi og skjöldum, þannig að hann óskaði eiginlega bara eftir einhverju í þeim anda. Það hentar mér vel, vegna þess að ég er líka svolítið mikill víkingakall og hef áhuga á þessum söguarfi.“
Víkingaþemað er ríkjandi hjá Elvari, sem stofnsetti Baccalá bar, og rekur Ektafisk, Fjöruböðin (þar sem einmitt er víkingaskip sem þjónar þeim tilgangi að vera heitur pottur) og tjaldsvæðið. Mynd: RH
Fyrsti veggurinn sem Oddur málaði. Amma er fyrirmynd beggja persónanna, en hún hallaði sér upp að veggnum og Oddur strikaði eftir henni. Mynd: RH
Mikill áhugi á víkingum hjá frændum
Oddur segir að persónurnar á veggjunum séu ekki einhverjir ákveðnir, heldur fólk sem hann sér fyrir sér. Hann byrjaði að mála árið sem hann fermdist, en hann fermdist í ásatrú og hefur mikinn áhuga á þessu tímabili í sögu Íslands. „Fatnaðurinn og aukahlutir persónanna á veggjunum eru held ég nokkuð nærri lagi, en ég er alveg frekar mikið nörd þegar kemur að svoleiðis,“ segir Oddur, og segir að Elvar frændi hans sé líka svolítill nördi þegar kemur að þessu.
Mér er alveg sama hvað það heitir, ég hef áhuga á öllu sem tengist list
Listin er ekki bara áhugamál hjá Oddi, heldur partur af tilverunni. Hann hefur verið að teikna, skapa, mála og tjá sig á allskyns hátt síðan hann man eftir sér. „Það hefur ekkert annað komist að hjá mér,“ segir hann. „Ég var að klára fyrsta árið á listnámsbraut í VMA, sem mér hefur þótt alveg æðislegt. Ég er samt ekkert að sérhæfa mig mikið, ég hef áhuga á ýmsu listatengdu. Núna er ég til dæmis að gamni mínu að skrifa töluvert, bæði ljóð og stuttar sögur. Nýlega kom ég fyrst fram á sviði fyrir framan hóp af fólki og flutti ljóð, og það fannst mér alveg geggjað! Ég fékk klapp og hrós og kannski er það þessi klassíska athyglissýki, og ég hef gaman af leiklist líka.“
Oddur hefur einnig prófað að æfa dans, hefur gaman af söng og hefur prófað alls kyns hljóðfæri líka, þannig að hér er fjölhæfur listamaður á ferðinni sem vert er að fylgjast með. „Mér er alveg sama hvað það heitir, ég hef áhuga á öllu sem tengist list. Til þess að takmarka mig ekki neitt þegar kemur að því, segist ég alltaf bara vera listamaður. Það er nógu vítt!“ segir Oddur Atli að lokum.
Hér er hægt að fylgjast með listsköpun Odds á Instagram.
Náðhúsin falla vel inn í umhverfið. Mynd: RH
Bæði er hægt að setjast á stellið í gáminum sem er vaktaður af virðulegum víkingi og hundi hans, eða í þríhyrningslaga einkakömrum sem minna á burstabæ. Mynd: RH