Fara í efni
Mannlíf

„Alvöru“ betri sæti og andlitslyfting

Dagur Smári Sigvaldason, einn vakstjóra í Sambíóunum á Akureyri, mátar hægindastól í salnum. Ljósmynd: Skapti Hallgrímsson

Nýja bíó fékk andlitslyftingu fyrir skömmu þegar framhlið þessa gamla, fallega húss efst við Strandgötu var tekin í gegn, gert var við sprungur og húsið málað í nýjum, mildum litum. Nú hafa einnig orðið skemmtilegar breytingar innandyra.

Akureyringar sem komnir eru af léttasta skeiði muna líklega eftir því að fyrir margt löngu var boðið upp á „betri sæti“ í Nýja bíói, sem voru þó alls ekki betri en önnur, að minnsta kosti ekki í minningunni. Þau voru að vísu fremst í salnum en álíka hörð og almennu sætin. Nú er öldin önnur – í orðsins fyllstu merkingu.

Nokkrum hægindastólum hefur verið komið fyrir fremst í stærri bíósalnum; svona gripir voru einhvern tíma kallaðir húsbóndastólar, Lazy boy á útlensku, þótt þeir séu vitaskuld ætlaðir öllum, ekki síður en starf ráðherra eða sendiherra ...

„Við settum fyrst upp svona stóla í bíóinu í Egilshöll og sami háttur er hafður á í Nýja bíói. Öll sæti í bíóum eru löngu orðin mjúk og mun betri en í gamla daga en þessi eru sannarlega betri en önnur. Verðið er þó það sama og annars staðar í salnum því ekki er selt sérstaklega í þessi sæti; fyrstur kemur, fyrstur fær,“ sagði Björn Árnason framkvæmdastjóri Sambíóanna við Akureyri.net

„Starfsmennirnir segja mér að þetta sé strax orðið vinsælt, eins og í Egilshöll,“ segir Björn. Hann segir að framhlið hússins hafi verið farin að láta á sjá og tímabært að hún fengi andlitslyftingu. „Við höfum líka breytt ýmsu innandyra síðustu misseri, sett upp nýja skjái og fleira og erum hvergi nærri hætt. Ég vil að bíóið á Akureyri sé eins og í Egilshöll, nýjasta og vinsælasta bíóið okkar.“

Ljósmynd: Skapti Hallgrímsson