Fara í efni
Mannlíf

„Alltaf eitthvað nýtt í Vísindaskólanum“

„Alltaf eitthvað nýtt í Vísindaskólanum“

„Það er allt á fullu hjá okkur við undirbúning Vísindaskóla unga fólksins. Þetta er áttunda árið sem skólinn er starfræktur og við erum alltaf með eitthvað nýtt og spennandi í boði. Skráning stendur yfir og enn eru nokkur pláss laus og fyrstir koma fyrstir fá,“ segir Sigrún Stefánsdóttir í samtali við Akureyri.net en Sigrún hefur verið skólastjóri Vísindaskólans frá upphafi.

Meðal þeirra sem koma að kennslunni að þessu sinni er Vilhelm Anton Jónsson sem krakkarnir þekkja betur sem Vísinda Villa eða Villa naglbít. Hann ætlar að vinna með texta og íslensku, sem verður svo grunnur að myndböndum. Annað verkefnið verður í Flugsafninu þar sem nemendur læra margt um flug, til dæmis hvað gerir það að verkum að við getum flogið, og eins verður fjallað um framtíðarflugvélarnar. En það verður ekki bara áhersla á framtíðina, fortíðin verður líka til umfjöllunar; henni kynnast krakkarnir í Kjarnaskógi þar sem þau læra að tálga tól og tæki, baka víkingabrauð og læra að kola. Heilbrigði og hreyfing verður í hávegum eins og alltaf og sérfræðingar frá Umboðsmanni barna koma til þess að fjalla um réttindi barna og annar sérfræðingahópur kennir unga fólkinu að reikna út hvað það kostar að reka einn táning.

Sigrún segir að skólinn hafi verið fullbókaður frá upphafi en alls komast 75 til 80 að á hverju sumri. Skólinn fer fram dagana 20. til 24. júní. Vísindaskólinn nýtur styrkja í ýmsu formi frá ýmsum fyrirtækjum og stofnunum, en nemdendur geta notað frístundastyrkinn til þess að borga þátttökugjaldið sem er 25.000 krónur. Inni í því er þátttaka og hádegisverður alla dagana. Upplýsingar um skráningu er hægt að nálgast inn á visindaskoli.is.

Börnin eru á aldrinum 11-13 ára og segir Sigrún að þau sem tóku þátt í skólastarfinu á fyrstu árunum séu mörg hver nú þegar komin á háskólanám. Hún er þeirrar skoðunar að Vísindaskólinn sé góð kynning á því hvað háskólar landsins séu að bjóða upp á og þá um leið góður hvati til þess að stunda nám.

Hér má sjá nokkrar skemmtilegar myndir úr Vísindaskólanum á síðasta ári.