Fara í efni
Mannlíf

Alls ekki bara bókasafn og suss!

Kanónurnar þrjár á Amtsbókasafninu, frá vinstri: Aija Burdikova, Hrönn Björgvinsdóttir og Svala Hrönn Sveinsdóttir. Ljósmynd: Skapti Hallgrímsson

Bókasafn þarf ekki endilega að vera bara bókasafn þangað sem við sækjum bækur og sussað er á okkur ef við höfum hátt. Bókasafn getur líka verið miðstöð fyrir alls konar, hýst daglega viðburði af ólíkasta og ólíklegasta tagi, eins og raunin er á Amtsbókasafninu á Akureyri. Þar fær starfsfólkið hugmyndir, og fólk úti í bæ líka, og þær eru framkvæmdar.

Ein af fyrstu fréttum á Akureyri.net þegar fréttamiðillinn var endurvakinn í nóvember 2020 var um lán á lautarferðakörfum, plokkstöngum og kökuformum. Hugmyndaauðgi starfsfólks og notenda safnsins virðast engin takmörk sett.

Frískápur, fræsafn, íslenskuklúbbur, borðspil fyrir fullorðna, spilaklúbbur, handavinnuklúbburinn Hnotan, Ritfangar – skapandi skrif og kvikmyndaklúbbur í bígerð. Þetta eru aðeins nokkur dæmi um það sem er í gangi á Amtsbókasafninu á Akureyri. Viðburðadagatalið ber frjóu hugmyndaflugi starfsfólks gott vitni. Nánast daglega er hægt að finna eitthvað annað en bækur í stóra húsinu við Brekkugötuna.

Tíðindamaður frá Akureyri.net skrapp á bókasafnið og hitti þrjár kanónur sem starfa á safninu, og eiga sinn þátt í fjölbreytninni og lífinu sem þar ríkir. Aija Burdikova, Hrönn Björgvinsdóttir og Svala Hrönn Sveinsdóttir buðu upp á kaffi og spjall á kaffistofu safnsins. Fall er fararheill, eða vonandi eitthvað í þá áttina, því í þann mund sem samtal okkar um frískáp, verkefni til að sporna gegn matarsóun, var að hefjast rak sá sem þetta skrifar olnbogann í fullan kaffibollann og lagði sitt af mörkum … í matarsóuninni!

Hrönn Björgvinsdóttir við frísskápinn sem stendur utan við Amtsbókasafnið. Ljósmynd: Skapti Hallgrímsson

Við byrjum á að ræða um frískápinn sem stendur við austurenda hússins og hefur þar þjónað sínu hlutverki, unnið gegn matarsóun, frá því í júlí í fyrra. Hugmyndin er auðvitað ekki ný og ekki verið að finna upp hjólið við Brekkugötuna á Akureyri.

Alþjóðleg hreyfing, nýtt á Íslandi

Með svokölluðum frískáp við Amtsbókasafnið er ekki verið að finna upp hjólið því fyrirbærið er þekkt erlendis þó stutt sé síðan þessi alheimshreyfing náði til Íslands. Hrönn Björgvinsdóttir hefur umsjón með skápnum við safnið, en upphaflega var það Serena, ítölsk kona sem rak kaffihúsið Orðakaffi í safninu, sem kom með hugmyndina. „Hún heyrði af frískáp við Bergþórugötu í Reykjavík, fyrsta frískápnum á Íslandi. Hún gaukaði þessari hugmynd að okkur og okkur fannst þetta alveg tilvalinn staður fyrir frískáp. Við kynntum okkur þetta og fórum svo bara af stað,“ segir Hrönn. Eins og með fleiri góðar hugmyndir sem koma upp á safninu – eða koma inn á safnið – var bara slegið til og farið af stað við undirbúning og framkvæmd verkefnisins.

Nú eru tæp tvö ár frá því að fyrsti skápurinn var settur upp hér á landi og fleiri skápar að spretta upp. Það þurfti töluverðan undirbúning áður en skápurinn var settur upp, að sögn Hrannar, aðdragandinn hafi verið hátt í ár áður en skápurinn var kominn upp. Þegar hún leitaði til Heimilistækja um að fá fyrirtækið til liðs við verkefnið með því að gefa ísskáp var henni bent á að venjulegir nútíma ísskápar þyldu varla meira en fimm stiga frost – en gamaldags freon-skápar væru kjörnir í svona aðstæður. Það var því auglýst eftir slíkum skáp og hann fékkst gefins.

Mynd sem kona birti var á Facebook síðu frísskápsins um kvöldmatarleytið fyrir nokkru, eftir að hún setti töluvert magn af rækjusalati og einhverju fleira. Mest allt var farið síðar um kvöldið.

Spornað gegn matarsóun

Hugmyndin að baki frískápunum er fyrst og fremst að sporna gegn matarsóun. Þangað getur hver sem er komið með matvæli og hver sem er komið og tekið fyrir sig. Ástæðurnar geta verið margs konar, til dæmis þegar fólk fer burt í frí og eitthvað í ísskápnum myndi að öðrum kosti skemmast, ef fólk á afganga sem það vill koma til annarra og svo framvegis. En að auki gagnast slíkir skápar örugglega fólki sem hefur minna á milli handanna og getur leitað þangað þegar á þarf að halda.

„Já, þetta er í rauninni fyrst og fremst að sporna gegn matarsóun og hitt er bara bónus, ef fólk hefur kannski ekki mikið á milli handanna þá getur það þarna gengið að mat,“ segir Hrönn. „En það er ekki þannig að maður þurfi að vera í fjárhagskröggum til að geta notað þetta. Þetta er fyrir alla.“

Facebook-síðan flýtir fyrir

Hrönn segir fólk ekki vera feimið við að koma og taka úr skápnum, kannski aðeins fyrst þegar verkefnið var að byrja, en nú noti margir tækifærið þegar farið er á bókasafnið og kíki í skápinn í leiðinni. Skápurinn er mikið notaður og oft stoppa matvæli stutt við. Verkefnið er með Facebook-síðu þar sem gefendur matvæla eru hvattir til að setja inn upplýsingar. Það gagnast bæði til að fólk viti hvað í skápnum er að finna sem og til að fylgjast með aldri og ástandi matvæla. Hrönn segist sjá beint samband á milli þess þegar gefendur setja mynd eða upplýsingar inn í Facebook-hópinn og hve fljótt matvælin komast í nýjar hendur.

„Það er örsjaldan sem við þurfum að henda einhverju úr skápnum, en það kemur fyrir. Það er bara ef eitthvað er búið að vera þarna í fjóra, fimm daga og ekki farið, eða í einstaka tilvikum ef það eru matvæli sem ekki eru merkt á neinn hátt.“

Þurrvöruskápur í bígerð

Hrönn er ánægð með hve vel hefur gengið með skápinn, segir hann þjóna vel tilgangi sínum og engin vandræði hafi komið upp í tengslum við verkefnið og notkun skápsins. Hún vitjar um skápinn nokkrum sinnum í viku og öðru hverju tekur starfsfólkið sig til og þrífur hann. Notendurnir geta líka tekið til hendinni því það er tuska á staðnum hægt að þurrka innan úr skápnum þegar þarf.

„Nú stendur til að setja inn þurrvöruskáp þarna við hliðina. Fólk kemur oft með þurrvöru, hveiti, morgunkorn og hitt og þetta. Það er bara óþarfi að það sé í ísskáp og tekur mikið pláss. Þannig að við stefnum að því að setja upp þurrvöruskáp við hliðina,“ segir Hrönn Björgvinsdóttir, verkefnastjóri á Amtsbókasafninu á Akureyri.

  • Á MORGUN - Meira um fjölbreytnina á Amtsbókasafninu