Fara í efni
Mannlíf

Allir léku á allt og fullt sjö kvöld vikunnar

Atlantic kvartettinn og söngvararnir tveir í Alþýðhúsinu sumarið 1959, ári eftir stofnun hljómsveitarinnar. Frá vinstri: Ingimar Eydal, Finnur Eydal, Edwin Kaaber, Sveinn Óli Jónsson, Óðinn Valdimarsson og Helena Eyjólfsdóttir.

Gamla Alþýðuhúsið við Gránufélagsgötu – Allinn – er horfið af yfirborði jarðar. Þar stigu margir dans á árum áður, enda um að ræða helsta skemmistað Akureyrar til margra ára áður en Sjálfstæðishúsið – Sjallinn – reis handan Glerárgötunnar. Dansinn dunaði reyndar lengi í báðum húsum oft í viku en langt er síðan gamla Alþýðuhúsið var nýtt undir slíkar starfsemi og hefur sannarlega mátt muna sinn fífil fegri í mörg ár.

Hótel Norðurland var aðal samkomustaður Akureyrar þar til snemma á sjötta áratugnum þegar Góðtemplarareglan keypti staðinn og breytti á endanum í kvikmyndahús, Borgarbíó. Um svipað leyti eignuðust verkalýðsfélögin hús við Gránufélagsgötu, þar sem verið hafði þvottahús en var illa farið eftir bruna. Húsið var byggt upp og nefnt Alþýðuhúsið.

Nú er hún Snorrabúð stekkur ... Lítið var eftir af „gamla, góða“ Allanum við Gránufélagsgötu um síðustu helgi. Nú er ekkert eftir. Ljósmynd: Skapti Hallgrímsson

Þar spiluðu fjölmargar hljómsveitir reglulega árum saman, til dæmis Atlantic kvartettinn sem þeir bræður Ingimar og Finnur Eydal stofnuðu í félagi við aðra. Íslendingar tengja Ingimar gjarnan Sjallanum og ekki að ósekju því hljómsveit hans var húsband þessa frábæra skemmtistaðar til fjölda ára, en Ingimar var viðloðandi Allann hvert sumar í um það bil áratug áður en hann flutti sig yfir götuna þegar Sjálfstæðishúsið var tekið í notkun árið 1963.

Sumarið 1960 lék Atlantic í Allanum öll kvöld vikunnar, eins og tíðkaðist árin á undan, en þá hafði Örn Ármannsson leist Edwin Kaaber af og Gunnar Reynir Sveinsson víbrafónleikari bæst í hópinn og því um kvintett að ræða. Hljómsveitin þótti sérlega góð og Svavar Gests, tónlistarmaður og útgefandi hældi henni á hvert reipi í grein sem hann skrifaði í dagblaðið Tímann sem gefið var út í Reykjavík.

Eydalsbræður saman í RIFF-kvartettinum í Allanum sumarið 1956, eftir að Finnur lauk einleikaraprófi í klarínettuleik 16 ára frá Tónlistarskólanum í Reykjavík. Hann er lengst til vinstri, þá Ingimar við píanóið, Reynir Jónasson blæs í tenorsaxófón og Friðjón Snorrason leikur á trommur. RIFF lék í Alþýðuhúsinu þetta sumar.

Grein Svavars hét Allir leika á allt, og þar benti Svavar á að mannskapurinn skiptist á að leika á flest hljóðfærin. Finnur væri jafnvígur á klarinett, baritón saxófón, trommur og kontrabassa, Ingimar léki á píanó og harmoniku, Örn spilaði á gítar og bassa og Gunnar Reynir á víbrafón og gripi í trommurnar. Þá sagði hann söngkonuna Helena leika á hristu og ætti líka til að spila á trommur á meðan Sveinn Óli gripi í kontrabassann. Allir lékju sem sagt á (nánast) allt, „og forstjóri Alþýðuhússins hefur leikið á forstjóra allra annarra samkomuhúsa, því hann einn hefur Atlantic-kvintettinn samningsbundinn, sem er orsökin fyrir því að Alþýðuhúsið á Akureyri er fullt sjö kvöld vikunnar.“

Svavar sagði einnig í greininni: „Ég hafði ekki hlustað nema á fáein lög þegar ég gerði mér grein fyrir, að þarna var á ferðinni hljómsveit, sem líklega mundi setja allt á annan endann ef hún léki í Reykjavík.“