Fara í efni
Mannlíf

Allir fengu kerti á aðfangadagskvöld

Kertagerð í Laufási. Ljósmyndir: Haraldur Þór Egilsson.

Fróðleiksmoli frá Minjasafninu á Akureyri

21. desember – Vetrarsólhvörf

Á vetrarsólhvörfum, 21. desember, er sólin lægst á himni á norðurhveli jarðar og sólargangur stystur, en það merkir einnig að nú tekur daginn að lengja. Því ber að fagna og forn hefð í Skandinavíu er að halda hátíð á þessum tíma ársins sem heitir því kunnuglega heiti, jól. Ein kenningin er að heitið sé í raun hjól, í merkingunni hringur, að með vetrarsólhvörfum hefjist nýr hringur sólarinnar, sólvagnsins. Hvort það er rétt er óvíst en það var hins vegar afar heppilegt að sameina forna og nýja hátíðisdaga þegar samfélögin urðu kristin.

Þó hvert heimili í dag eigi ofgnótt af kertum þá fylgir þeim bæði ljós og hátíðleiki. Hér forðum var hefð fyrir því á mörgum heimilum á aðfangadagskvöld að allir á heimilinu fengju sitt eigið tólgarkerti. Það hefur án efa verið hátíðleg stund þegar kveikt var á kertum allra heimilismanna í baðstofunni á aðfangadagskvöld þar sem birtan varð þá skyndilega miklu skærari en fólk átti að venjast dags daglega. Ef ekki var kertastjaki á heimilinu þá var kertinu haganlega komið fyrir á borði eða rúmgafli og fylgst með ljósinu loga þar til það var uppurið.

Haraldur Þór Egilsson er safnstjóri Minjasafnsins á Akureyri. Fróðleiksmoli frá Minjasafninu birtist á Akureyri.net á hverjum degi til jóla