Fara í efni
Mannlíf

Aldrei langað til að vera eins og allir hinir!

Jóhann Skírnisson á Akureyrarflugvelli á föstudaginn, í síðustu ferðinni sem flugstjóri. Lengst til vinstri er Oddrún Assa, dóttir hans, sem skaust norður með pabba sínum, og hægra megin hin dóttir Jóhanns og Freydísar eiginkonu hans, Hjördís Elma, og sambýlismaður hennar, Chris Wolffensperger. Myndir: Skapti Hallgrímsson

Slökkvibílum Isavia á Akureyrarflugvelli var lagt á flughlaðinu síðdegis á föstudag og heiðursbunu var sprautað yfir Dash vél Flugfélags Íslands sem komin var í áætlunarflugi frá Reykjavík. Slíkt er gjarnan gert á sérstökum hátíðarstundum og átti sannarlega við í þetta skipti.

Í flugstjórasætinu var Þingeyingurinn Jóhann Skírnisson, eins og svo oft áður síðustu 20 ár, að þessu sinni í síðustu ferðinni; hann varð 65 ára á laugardaginn og frá og með þeim degi má enginn starfa sem flugmaður. „Á afmælisdaginn er maður kominn í úreldingu eins og gamall fiskibátur – eða gömul flugvél,“ segir Jóhann í samtali við Akureyri.net af þessu tilefni.

Jóhann bjó lengi á Akureyri en hefur nú gert út frá Reykjavík í um tvo áratugi. 

„Þetta hefur verið stórkostlegur tími og það er fjarri því að mig langi til að hætta. Sumir hlakka til eftirlaunaáranna en ég upplifi sjálfan mig ekki nema 45 ára! Mig langar því alls ekki að hætta,“ sagði hann.

Áhöfnin í síðustu ferð Jóhanns sem flugstjóra. Frá vinstri: Guðbjörg Kristín Gunnarsdóttir, Jóhann Skírnisson, Edda Ingadóttir og Jóhann Atli Hafliðason.

Flugmannsferill Jóhanns, sem er frá Skarði í Dalsmynni nyrst í Fnjóskadal, hófst á Akureyri fyrir 39 árum.

„Ég byrjaði 1987 hjá Flugfélagi Norðurlands en var flugkennari frá 1985 þannig að nú eru 39 ár sem ég hef ekki unnið við neitt sem flug,“ segir hann en bætir strax við: „Þegar ég vann fyrst sem flugkennari voru launin reyndar svo léleg að ég þurfti að taka einn og einn túr á sjónum til að eiga fyrir meiru en hafragraut handa fjölskyldunni. En ég hafði gott af því.“

Jóhann segir að skipta megi starfsferlinum í tvennt. „Fyrst er það áratugurinn hjá Flugfélagi Norðurlands, í óbyggðaflugi á Twin Otterunum á Grænlandi og mikið í sjúkraflugi út frá Akureyri. Þá gerðust öll ævintýrin ... “

Gera allt til að hjálpa fólki í neyð

Margt var ófullkomið á þessum árum, segir hann. Sums staðar engin aðflugstækni, litlar eða lélegar veðurspár og flugbrautir oft ekki ruddar, einkum þegar um sjúkraflug var að ræða en „samt urðum við auðvitað að fara. Sums staðar voru ekki ljós á flugbrautum heldur var bílum lagt við endann á brautinni. Það varð að ganga eins langt og flugvélarnar og við sjálfir réðum við,“ segir hann.

„Blessunarlega gekk þetta. Við sögðum stundum til gamans þegar mest gekk á að allt hefði gengið upp vegna þess að Guð almáttugur væri með í för. Sjúkraflug er þess eðlis að þú veist annað hvort af helsjúku fólki eða mjög slösuðu, og það setur á mann mikla pressu innan frá. Maður vill gera allt sem maður getur til að hjálpa fólki í neyð.“

Sigurður Aðalsteinsson var einn þeirra sem heilsaðu upp á Jóhann í flugstöðinni á Akureyri þann skamma tíma sem hann staldraði við á föstudaginn. Þeir voru starfsbræður hjá Flugfélagi Norðurlands á árum og Sigurður þá einnig framkvæmdastjóri.

Fallegasta nafn Íslandssögunnar

Seinni hluti starfsferilsins hófst um aldamótin þegar Jóhann fór af Twin Otter vélum FN yfir á Fokker vélar Flugfélags Íslands „og eftir það er eiginlega ekki frá neinu að segja – nákvæmlega eins og ferill flugmanns á að vera. Það á ekkert að gerast!“

Icelandair keypti Flugfélag Norðurlands árið 1997 og breytti nafninu í Flugfélag Íslands, „þannig að ég hef unnið fyrir sömu kennitöluna allan tímann, þótt nafnið hafi ekki alltaf verið það sama,“ segir Jóhann og skellir upp úr þegar nafn félagsins ber á góma.

Fyrirtækið fékk um tíma eitt umtalaðasta nafn seinni; Air Iceland Connect. „Á þessum tíma fengu allar vélar félagsins nöfn á íslenskum kvenhetjum en svo var einhver snillingurinn sem ákvað að fjarlægja fallegasta nafn Íslandssögunnar, Flugfélag Íslands.“

Jóhanni var ekki skemmt, fannst Air Iceland Connect afleitt, og svo var um fleiri. „Enn hefur enginn viðurkennt að hafa borið ábyrgð á þessu.“

Fékk að blómstra

Hann kveðst hafa fengið ótal spennandi tækifæri hjá fyrirtækinu, í fluginu sjálfu og við kennslu í flughermi, svo nefnd séu dæmi, og fengið að blómstra í þeim öllum.

Jóhanni buðust líka tækifæri annars staðar en þáði ekki. Honum hefur alla tíð fundist yndislegt að fljúga innanlands.

„Um miðjan 10. áratuginn var lítið að gera í faginu og fyrir okkur hér á Akureyri var það aðallega að fljúga með póstinn, það var sjúkraflugið og svo Grænlandsflugið. Margir leituðu fyrir sér erlendis og mér bauðst að fljúga stórum vélum í útlöndum,“ segir hann, en það heillaði ekki.

„Mér finnst gott að vinna innanlands hjá þessu litla fyrirtæki. Mér finnst þessi persónulegu tengsl dýrmætust; mér finnst skemmtilegra að vera stór fiskur í lítilli tjörn en síli í úthafinu. Sumum finnst skemmtilegra að fljúga til New York en ég er ekki þannig.“

Hluti fjölskyldunnar var á Akureyrarflugvelli þegar Jóhann kom síðustu ferðina sem flugstjóri, m.a. systkini Freydísar konu hans, þau Anna Gréta og Oddur Helgi ásamt mökum. Frá vinstri: Chris Wolffensperger. Hjördís Elma Jóhannsdóttir, Oddrún Assa Jóhannsdóttir, Jóhann Skírnisson, Aðalsteinn Sigurgeirsson, Anna Gréta Halldórsdóttir, Oddur Helgi Halldórsson og Margrét Harpa Þorsteinsdóttir. 

Er þetta það sem við viljum?

Jóhann nefnir persónuleg tengsl og tekur dæmi; að fljúga reglulega út í Grímsey eða aðra staði á Norðurlandi, eða til Ísafjarðar og Vestmannaeyja. Það sé ótrúlega dýrmætt og gefandi að vera í tengslum við venjulegt fólk á slíkum stöðum.

Þegar honum bauðst starf erlendis settust þau niður hjónin, Jóhann og Akureyringurinn Freydís Ágústa Halldórsdóttir, og spurðu sig stórrar spurningar: „Er þetta það líf sem við viljum lifa? Að ég myndi nánast flytja að heiman. Það tók okkur svona 10 mínútur að svara neitandi. Þetta snýst nefnilega ekki um flugvélarnar heldur um lífið heima; að geta stappað matinn fyrir börnin á kvöld og að hjálpa þeim með margföldunartöfluna.“

Margir kollegar héldu utan til starfa en Jóhann og Freydís völdu sem sagt innanlandsflugið. Þá fer pabbinn í vinnuna að morgni og er kominn heim fyrir kvöldið. „Mig hefur aldrei langað að vera eins og allir hinir!“ segir hann og hlær.

Virki kærleikans

Jóhann hugsar oft heim í Skarð, þar sem hann ólst upp í stórum systkinahópi, og dvelur þar gjarnan enda eiga systkinin jörðina.

Foreldrar hans voru Skírnir Jónsson og Hjördís Sigurbjörnsdóttir og föðurforeldrar Jóhanns bjuggu einnig á heimilinu, þau Jón Jóhannsson og Sigrún Guðmundsdóttir.

„Maður býr að ofboðslegum uppeldisverðmætum. Skarð var menningar- og bókmenntaheimili, þarna ríkti hvatning og það er merkilegt að við systkinin vorum aldrei skömmuð fyrir nokkurn skapaðan hlut,“ segir hann.

Skilaboðin í uppeldinu voru kurteisi og snyrtimennska, segir hann. „Þegar ég horfi til baka sé ég að þetta sveitaheimili var fyrir börnin; Skarð var virki kærleikans þar sem öllu illu var haldið í burtu frá okkur. Þetta fylgir manni og gefur manni gildismat. Það formar karakterinn.“

Jóhann segist hafa velt því fyrir sér hvað geri fólk að því sem það er. „Þegar komið er á þennan stað í lífinu fer maður að hugsa um þetta. Hvað var manni dýrmætast þegar á móti blés? Þegar öllu er á botninn hvolft þá skipta foreldrar öllu máli. Að eiga skjól. Og að eiga afa og ömmu einhvers staðar nálægt. Það er dýrmætast af öllu!“