Fara í efni
Mannlíf

Aldeyjarfoss – Sagan á bak við myndina

SAGAN Á BAK VIÐ MYNDINA - I

Þeir kalla sig Miðvikudagsmenn, Daníel Starrason, Eyþór Ingi Jónsson og Sindri Swan, allir ljósmyndarar og Eyþór að auki organisti við Akureyrarkirkju. Vikulega halda þeir út í vissu eða óvissu með tæki sín og tól til að fanga íslenska fegurð. Eyþór Ingi og Sindri Swan segja hér, að beiðni Akureyri.net, frá leiðangri vikunnar. 

_ _ _

Þar sem við félagarnir erum stöðugt að leita að spennandi viðfangsefnum til að ljósmynda, fylgjumst við með allskonar spám: Veðurspám, skýjahuluspám, stöðu vetrarbrautar, loftsteinaregnum, tunglstöðum og norðurljósaspám. Við urðum afar spenntir þegar spáð var norðurljósasprengingu í lok febrúar. Við höfðum verið að þvælast í Öxnadal kvöldið áður og upplifað þar mjög falleg ljós þrátt fyrir ekkert sérstaka spá, þannig að nú hugsuðum við okkur gott til glóðarinnar. Kvöldið yrði stórkostlegt.

Við Miðvikudagsmenn, Daníel, Sindri og Eyþór, höfum stefnt á að mynda Aldeyjarfoss undir stjörnuhimni í mörg ár. Nú var rétti tíminn.

Því miður komst Daníel ekki í ferðina, þannig að Sindri og Eyþór fóru bara tveir, hálf vængbrotnir.

Þegar við komum að mynni Bárðardals leist okkur ekkert á blikuna. Skýin hrönnuðust upp og engin ljós sjáanleg. Við ákváðum samt að keyra inn dalinn fagra og athuga hvað gerðist.

Ljósmynd: Eyþór Ingi Jónsson

Við keyrðum þar til við komum að skafli sem okkur þótti frekar slæm hugmynd að aka yfir, þrátt fyrir að við værum á „Ævintýrabílnum“ (gömul Súkka sem notuð er í ljósmyndaferðum). Þannig að við ákváðum að ganga síðustu kílómetrana í snjó, svelli og drullu. Oftast á tveimur fótum, stundum á fjórum. Úthaldið var ekkert sérstakt eftir leti vetrarins og bakpokarnir þungir.

Við félagarnir höfðum séð fyrir okkur að við værum þarna aleinir, í norðurljósaparadís, engin ljósmengun, logn og kyrrð. Þegar við komum var rok, drulla, skýjað og tveir erlendir ljósmyndarar voru komnir á undan okkur og búnir að taka bestu ljósmyndastaðina.

En það kom svo í ljós að það voru miklir öðlingar og alls ekki verra að hafa þá á staðnum með okkur. Þeir tóku okkur eiginlega með opnum örmum, enda kannski spennandi fyrir þessa kínversku ferðamenn að sjá tvo norðlenska lopapeysulúða mynda. Þeir voru líka mjög tillitssamir og buðust til að færa sig.

Miðvikudagsmenn, frá vinstri: Eyþór Ingi, Daníel og Sindri.

Við klifruðum niður að hylnum, sá yngri fótafimur, hinn aðeins hægari. Við sáum fram á að ef við vildum ná sérstöku sjónarhorni yrðum við að klöngrast aðeins yfir kletta og vaða djúpan snjó. Við komumst á góðan stað, settumst í blautan snjóinn. Við biðum spenntir og norðurljósin komu... á bak við okkur. Við ákváðum að bíða lengur og sáum ekki eftir því þar sem það birtust allt í einu dansandi norðurljós fyrir framan okkur. Við vorum tilbúnir og gleymdum því að við værum mjög blautir og kaldir á rassinum.

Sýningin stóð yfir í 2-3 mínútur.

Við hefðum ekki mátt vera nokkrum mínútum fyrr eða seinna, þá hefðum við misst af tækifærinu.

Sýningum lýkur oftast með því að tjöldin eru dregin fyrir og í þessu tilfelli var það eins.

Skýjatjöldin birtust.

Ljósmynd: Sindri Swan

Við klifruðum því aftur upp. Vorum orðnir þreyttir og ákváðum að stytta okkur leið og fara beint upp. Það var erfiðara en að fara niður og þegar við komum að klettabrúninni, reyndist aðeins hærra upp á brúnina en við héldum. Við vorum þakklátir fyrir nærveru kínversku kollega okkar, sem drógu okkur upp fyrir brúnina.

Þarna var komið nóg, enda orðið skýjað, komið langt fram á nótt og vinnan beið okkar morguninn eftir.

Við gengum svo að bílnum og hafði vegalengdin styst mikið á meðan við vorum að mynda. Kannski var það af því að við gengum niður í móti á leið að bílnum.

Þetta var árangursrík ferð af því að við náðum einni mynd hvor sem við vorum ánægðir með. Á bak við fjölda mynda okkar liggja margar ferðir þar sem útkoman var ekki að okkar skapi, en staðreyndin er sú að fyrst og fremst er það samveran sem gerir ferðirnar eftirminnilegar.