Fara í efni
Mannlíf

Albúmið – Andstæður í náttúrunni í júní

Skipasmíðahús Slippstöðvarinnar og hliðarhúsin tvö, efst fyrir miðju, sem byggð voru árin 1966-1968. Húsin til vinstri stóðu við gömlu smábátahöfnina. Ljósmyndir: Jón Pétursson

Í þriðja skipti skyggnist Akureyri.net í myndaalbúm Akureyrings. Jón heitinn Pétursson tók þessar myndir – 8. júní árið 1968! Ekki beint sumarlegt um að litast.

Kristinn Örn Jónsson, ökukennari, sonur myndasmiðsins gaf góðfúslegt leyfi til að birta myndirnar hér.

Viku áður en myndirnar voru teknar hafði Akureyrarblaðið Dagur fjallað um mikla veðurblíðu en einnig um andstæður í náttúrunni, því mikill hafís lá með öllu Norðurlandi.

„Norðlendingar hafa notið veðurblíðu um hálfs mánaðar skeið, svo sem bezt verður á kosið. Á Akureyri hefur hitinn komizt í 20 stig. Grasið grær, sauðburður gengur vel og víða fiskast vel. Hæg, suðlæg átt hefur ríkt. En hafísinn liggur með öllu Norðurlandi – hafþök af ís, mjög þéttum nema á mjóu belti við land, þar sem flugvélar leiðbeina skipum þessa blíðu vordaga.“

Dagur segir að á meðan sunnanáttin ríki sé bjart í hugum manna en heljar kuldinn sé á næstu grösum. „Gamlir menn, sem lifað hafa ísár og kunna frá þeim að segja, telja líklegt, að hafísinn verði enn um sinn næsti nágranni, og sömu skoðunar virðast a.m.k. einhverjir veðurfræðingar.“

Viku síðar var landsins forni fjandi kominn inn allan fjörð.

Frétt af forsíðu Akureyrarblaðsins Dags 1. júní 1968.