Ákvað hægt og rólega að verða læknir

„Það er frekar skondin saga á bak við mína leið í námið,“ segir Helga Björk Heiðarsdóttir, læknir á lyflækningadeild Sjúkrahússins á Akureyri í skemmtilegu viðtali á vef stofnunarinnar. Tilefnið er Dagur lækna sem var í gær, 17. maí. Þar segir Helga Björk frá sinni leið í læknisfræðina, starfinu í dag og hvernig hún sér framtíð heilbrigðiskerfisins.
„Helga starfar sem læknir á lyflækningadeild SAk og er ein af fjölmörgum læknum sem leggja sig fram dag eftir dag við að veita góða og örugga þjónustu við sjúklinga,“ segir á vef SAk. Akureyri.net fékk góðfúslegt til að birta viðtalið í heild, eins og viðtalið við Sigurð M. Albertsson, yfirlækni og skurðlækni á SAk. í gær.
Hvað er medisin?
„Ég hafði gaman af lífeðlis- og líffærafræði í framhaldsskóla, líka efnafræði og stærðfræði. Ég vann á sjúkrahúsinu á Húsavík með náminu, fyrst við ræstingar og svo aðhlynningu. Ég fann að sjúkrahúslífið heillaði mig,“ segir Heiða Björk í viðtalinu.
Eftir útskrift vissi hún þó ekki alveg hvert hún stefndi. Hún sótti um í læknisfræði í Osló – án þess að vera alveg viss hvort medisin væri læknisfræði eða lyfjafræði. „Frænka mín í Osló hélt að medisin væri lyfjafræði svo ég lokaði umsókninni! En rétt fyrir lokafrest leiðrétti hún sig – átján ára þáði ég plássið og lét vaða.“ Helga segir að með tímanum hafi henni fundist læknisfræðin verða sífellt áhugaverðari, heilsa sjúklinganna og samfélagsins mikilvægari og „síðan þá hef ég kynnst fullt af skemmtilegu samstarfsfólki. Ætli ég hafi ekki með þessu hægt og rólega ákveðið að verða læknir.“
Flóknari og fleiri sjúklingar
Helga Björk segir að það séu margar áskoranir sem fylgja því að starfa sem læknir í dag. „Sjúklingarnir verða flóknari og fleiri með hverjum deginum. Læknunum fjölgar hægar og því er oft ekki nægur tími fyrir hvern sjúkling né möguleiki á heildrænni og ítarlegri nálgun þótt þörf sé á.“ Þá segist hún hræðast gervigreindina. „Það má vel vera að það sé vanþekking og ég reyni að trúa því að hún verði okkur til hjálpar,“ segir hún og bætir kímin við: „og útrými ekki starfi okkar lækna“.
Aðspurð hvað henni þyki skemmtilegast við starfið segist Helgu Björk alltaf hafa fundist læknisfræðin fræðilega mjög spennandi, gaman sé að vinna með fólki, bæði sjúklingum og góðu samstarfsfólki. „Það er gefandi að sjá árangur og þegar vel gengur. Starfið er mjög fjölbreytt og enginn dagur er eins. Hraðinn er mikill og mér finnst ég varla mætt í vinnu þegar ég svo stimpla mig út. En það er bara svo frábært að fá að vinna við eitthvað sem gerir lífið og heiminn aðeins betri“.
Jafnvægið milli vinnu og frítíma
Læknastarfið og starfsánægja lækna virðist hafa breyst. Helga segir í því samhengi að töluvert sé rætt um vinnutengda streitu og ójafnvægi milli vinnu og frítíma. „Svo virðist sem að gera mætti betur hvað varðar sálfræðilegt öryggi í starfsumhverfinu. Það er tímabært að viðurkenna þörfina fyrir sveigjanleika og gefa svigrúm fyrir mismunandi skoðanir.
Læknaskortur er mikill og það krefst ánægju og vellíðanar að halda fólki í starfi og það getur reynst erfitt til lengri tíma með sama fyrirkomulagi fyrir alla. Ég tel mikilvægt að stjórnendur taki þátt í daglegu starfi lækna þar sem lögð er meiri áhersla á samstarf og samvinnu sem er grundvöllur góðra og áhrifaríkra ákvarðana.“
Að lækna fólk kjarninn í starfinu
Margir völdu sér starfið eflaust af áhuganum á mannslíkamanum og læknisfræðinni. „Sáu jafnvel fyrir sér lækninn í hvíta sloppnum sem kunni þá list að geta greint og læknað ýmis einkenni með því aðeins að slá reflekshamri á skrítna staði eða hlusta á hjartað. Hviss bamm, örfá ráð, nokkrar pillur og allt gott. Í dag dugir þetta ekki til. Til að lækna fólk er listinni drekkt í skyldum og kröfum. Það þarf að fylla út alls konar pappíra, umsóknir og önnur verkefni. Hversdagslífið er annasamt, og stundum yfirþyrmandi. Kannski stóra mönnunargat lækna sé að hluta til breyttu listinni að kenna, hamrandi á lyklaborðið í stað sveiflandi reflekshamarsins. Að lækna fólk er kjarninn í okkar starfi og við viljum eyða mestum tíma okkar í sjúklingana og aðstandendur þeirra en óþarfa mikill tími lækna fer í pappírsvinnu og slíkt er þjóðfélagslega óhagkvæmt.“
Auka þarf fjármagn í heilbrigðiskerfið
Þá færist umræðan að heilbrigðiskerfinu í heild sinni og hverju Helga Björk myndi helst vilja breyta þar. „Ég myndi gjarnan vilja auka skilvirkni kerfisins og þjónustunnar, bæta samvinnu milli stofnanna og flæði á milli svo eftirfylgd verði skýrari og öruggari. Eins finnst mér nauðsynlegt að lögð verði meiri áhersla á líðan heilbrigðisstarfsfólks með bættum stuðningi, ásamt því að fjölga starfsmönnum. Ljóst er að allt þetta kostar peninga svo það er ekki hjá því komist að auka fjármagn til heilbrigðiskerfisins. Ég tel mikilvægt að hafa lækna í stjórnunarstöðum en að hafa skilning á álaginu sem fylgir starfinu gæti hjálpað með betri forgangsröðun. Forgangsröðun sem vonandi skilar sér meðal annars í auknu öryggi allra, almennt skilvirkari þjónustu, betri samvinnu, vellíðan og jafnvel færri tilfellum kulnunar og öðrum fylgikvillum álagsins.“
Ljósmóðir, fótboltakona eða doktor í stærðfræði?
Hvað myndi Helga Björk starfa ef ekki læknir?
„Veit það ekki. Ég spurði fólkið í kringum mig og án umhugsunar voru svörin nákvæmlega þessi; ljósmóðir, fótboltakona og doktor í stærðfræði.“
Að lokum segir Helga Björk: „Ég er lánsöm að vinna við svona gefandi starf – Til hamingju með daginn, kæru kollegar!“
- Viðtalið við Sigurð M. Albertsson í gær: