Fara í efni
Mannlíf

Akureyrskur ritstjóri í tískubransann!

Áskell Þórisson, blaðamaður, ritstjóri og ljósmyndari, sem nú haslar sér völl í tískuheiminum!

Það vakti óneitanlega athygli þegar spurðist út nýverið að Akureyringurinn Áskell Þórisson, fyrrum blaðamaður og síðar ritstjóri Dags á Akureyri, væri viðriðinn hönnun kjóla. Gamli Eyrarpúkinn, nú forfallinn náttúruljósmyndari, kominn í tískubransann; það hefði einhvern tíma þótt saga til næsta bæjar!

„Já, þetta er skemmtilegt verkefni sem ég er að vinna ásamt Laufeyju Dóru, dóttur minni, sem á heiðurinn af því að við fórum af stað með þetta. Við notum myndir sem ég hef tekið í íslenskri náttúru og kjólaefnið er umhverfisvænt. Ef allt gengur upp ættu kjólarnir að geta komið á markað þegar haustar. Auk þess er ég að taka og vinna myndir sem ég set á striga. Reyndar verð ég með sýningu í Deiglunni um verslunarmannahelgina og þar geta áhugasamir séð hvað gamli Akureyringurinn er að gera,“ segir Áskell við Akureyri.net.

Heilög stund ...

Áskell segist hafa verið 12 eða 13 ára þegar hann fékk sína fyrstu myndavél. „Það var Kodak Instamatic og ég gat sett á hana flasskubb sem dugði á fjórar myndir. Vélin þótti algjör tækniundur. Filmuhúsið sá um að framkalla og kópera. Seinna rann upp sú stund að ég fékk betri vél og fór að nota slidesfilmur sem voru sendar til Kaupmannahafnar í framköllum. Það var eiginlega heilög stund þegar maður fékk lítinn, gulan plastkassa með myndum frá Kaupmannahöfn,“ segir Áskell, sem ólst upp í Norðurgötu 53. Foreldrar hans eru Þórir heitinn Áskelsson og Dóra Ólafsdóttir, elsti núlifandi Íslendingurinn – 108 ára.

Fyrstu sporin í blaðamennsku tók Áskell hjá Tímanum. Hann var ráðinn blaðamaður Tímans á Akureyri og var með skrifstofu á annarri hæð hússins við Hafnarstræti 90. Seinna var hann blaðamaður Dags og síðar ritstjóri sama blaðs. Þá stofnaði hann Bændablaðið fyrir Bændasamtökin og ritstýrði því í tæp 12 ár. „Um árabil hef ég verið á kafi í allskonar fjölmiðlun og kjólarnir er skemmtilegt hliðarhopp. Vonandi ná þeir flugi en það verður þá henni dóttur minni að þakka en ekki mér.“

Laufey Dóra tók meðfylgjandi mynd af föður sínum. Þarna má sjá gínu í litskrúðugum kjól en hann prýða íslenskar jurtir sem eitt sinn uxu á sunnlenskum mel. Á veggnum hangir mynd af fossi í Álfholtsskógi við Akranes en stóra myndin er ættuð úr fjöru í Hvalfirði.

Áhugasamir geta séð nokkrar af myndum Áskels á www.askphoto.is og eins er hann með myndir á Fjesbókarsíðunni sinni – smellið hér til að fara þangað.