Fara í efni
Mannlíf

Akureyringum hefur fjölgað um 301 á árinu

Stoltir foreldrar og bæjarstjórinn! Ásthildur Sturludóttir með tímamótastúlkuna, sem fæddist 14. apríl í vor. Foreldrarnir eru Þórey Erla Erlingsdóttir og Alexander Ottó Þrastarson. Ljósmynd: Skapti Hallgrímsson

Íbúar Akureyrar voru 20.199 þann 1. desember síðastliðinn skv. tölum sem Hagstofan birti í dag. Sama dag fyrir ári voru Akureyringar 19.898 og hefur því fjölgað um 301 eða um 1,5%.

  • Það var 14. apríl í vor sem upp rann stund sem margir höfðu beðið eftir: íbúar Akureyrar urðu 20.000. Þóreyju Erlu Erlingsdóttur og Alexander Ottó Þrastarsyni fæddist stúlkubarn á Sjúkrahúsinu á Akureyri. Smellið hér til að sjá frétt Akureyri.net um það.  

Íbúum á Norðurlandi eystra hefur fjölgað um 1,7% á þessu eina ári; voru 31.789 þann 1. desember 2022 en voru 32.339 um síðustu mánaðamót. Hafði fjölgað um 550.

Landsmönnum hefur á þessum 12 mánuðum fjölgað um 11.465, sem er um 3%. Mest hlutfallslega fjölgunin var í sveitarfélaginu Vogum, íbúar þar eru 172 fleiri nú en fyrir ári, 12,3% fleiri.

Íbúum Reykjavíkurborgar fjölgaði um 3.801 íbúa á tímabilinu (2,7%), og íbúum Hafnarfjarðar fjölgaði á sama tímabili um 998 (3,3%) og Kópavogsbæjar um 773 (1,9%). Í Reykjanesbæ hefur fjölgað um 1.293 íbúa (5,9%) og í Sveitarfélaginu Árborg fjölgaði um 627 íbúa (5,6%)

Tölfræðin lítur svona út varðandi sveitarfélög á Norðurlandi eystra; fyrst íbúafjöldi 1. desember 2022, þá fjöldinn 1. desember síðastliðinn, fjöldi fólks sem bæst hefur í íbúahópinn eða horfið á braut, og loks prósentutalan.

  • Akureyrarbær 19.898 / 20.199 / 301 / 1,5%
  • Norðurþing 3.162 / 3.200 / 38 / 1,2%
  • Fjallabyggð 1.977 / 2.010 / 33 / 1,7%
  • Dalvíkurbyggð 1.905 / 1.915 / 10 / 0,5%
  • Eyjafjarðarsveit 1.157 / 1.180 / 23 / 2,0%
  • Hörgársveit 769 / 812 / 43 / 5,6%
  • Svalbarðsstrandarhreppur 482 / 506 / 24 / 5,0%
  • Grýtubakkahreppur 381 / 403 / 22 / 5,8%
  • Tjörneshreppur 61 / 57 / -4 / -6,6%
  • Þingeyjarsveit 1.403 / 1.477 / 74 / 5,3%
  • Langanesbyggð 594 / 580 / -14 / -2,4%