Fara í efni
Mannlíf

„Akureyringar fádæma skemmtilegt fólk“

Bragginn í Nauthólsvík þar sem Akureyringar ætla að hittast á laugardagskvöld. Mynd: Facebooksíða Braggans.

Akureyringarnir Bragi Guðmundsson og Ingi Þór Ingólfsson ætla að smala Akureyringum á höfuðborgarsvæðinu saman á laugardagskvöldið. Segjast þeir renna alveg blint í sjóinn með það hversu margir mæta en fjöldi Akureyringa er búsettur í borg óttans.

„Pési Pylsa sagði einu sinni að það væru 40 þúsund Akureyringar í Reykjavík, ég veit ekki hvort það sé rétt, en ég á ekki von á því að það verði 100% mæting. Ef það verður allt brjálað þá hoppa ég bara á bak við barinn til aðstoðar, enda er ég vanur,“ segir fyrrum veitingamaðurinn Ingi Þór kíminn, en hann stendur á bak við uppátækið ásamt útvarpsmanninum Braga. Báðir eru þeir um fimmtugt en Ingi Þór segir Akureyringa á öllum aldri sem búsettir eru í höfuðborginni velkomna til þeirra í Braggann í Nauthólsvík á laugardagskvöldið frá kl. 20.

Óformlegur viðburður

Ingi Þór segir að hugmyndin að hittingnum hafi kviknað þegar hann rakst á Braga í borginni en þá höfðu þeir ekki sést í nokkur ár. „Þegar við fórum að rifja upp gamlar minningar og spyrjast fyrir um afdrif gamalla kunningja, kviknaði sú hugmynd að hóa Akureyringum sem eru fyrir sunnan saman, enda Akureyringar fádæma skemmtilegt fólk,“ segir Ingi Þór. Hann viðurkennir að líklegt sé að umræðuefni kvöldsins tengist minningum úr Sjallanum, Billanum eða Dynheimum en ekki verður þó gengið svo langt að spila Skriðjökla eða aðra norðlenska tónlist allt kvöldið enda um óformlegan viðburð að ræða með engri skemmtidagskrá. „Það er Eurovision kvöld á laugardagskvöldið svo ég reikna með því að söngvakeppninni verði hent upp á skjá en annars er hugmyndin sú að skapa vettvang þar sem fólk getur spjallað saman, sýnt sig og séð aðra. Það verða góð tilboð á barnum.“

Ekkert þorrablót fyrir brottflutta Akureyringa

Sjálfur hefur Ingi Þór búið í höfuðborginni tvisvar sinnum. Einu sinni í 10 ár og svo núna í tæplega 5 ár en hann starfar sem fasteignasali hjá fasteignasölunni Öldu. Ingi Þór segir taugina norður vera ramma, ekki bara hjá sér heldur líka hjá mörgum Akureyringum sem búa í borginni, svo hann hefur trú á því að svona hittingur geti orðið skemmtilegur. Þá segist hann hafa tekið eftir því að annar hver smábær á landinu hafi staðið fyrir þorrablóti í borginni fyrir brottflutta en hvergi sá hann auglýst blót fyrir Akureyringa svo honum fannst vera kominn tími á hitting fyrir þá. „Þetta er félagsleg tilraun. Við Bragi höfum bara auglýst þetta á samfélagsmiðlum og þar sem fyrirvarinn er stuttur og margt annað í gangi þetta kvöld kemur bara í ljós hversu góð mætingin verður. Í öllu falli þá fáum við Bragi okkur bara bjór saman í góðum félagsskap.“