Fara í efni
Mannlíf

Afmæliseinvígi í „fimmtugsþraut“!

Feðgarnir Finnur Friðriksson og Birnir Vagn á æfingu á Þórsvellinum á dögunum.

Finnur Friðriksson, dósent við Háskólann á Akureyri, verður fimmtugur síðar á árinu en fagnar því um helgina með óvenjulegum og skemmtilegum hætti.

„Maður hættir ekki að leika sér af því að maður verður gamall – maður verður gamall af því að maður hættir að leika sér,“ segir Finnur sem hyggst heyja einvígi í fimmtugsþraut á morgun – við Birni Vagn son sinn, einn besta frjálsíþróttamann Ungmennafélags Akureyrar! Afmæliseinvígið fer fram á íþróttavellinum á Laugum í Reykjadal.

„Fyrir rétt um ári barst það í tal á heimilinu að ég yrði fimmtugur á þessu ári og þyrfti því einhverja skemmtilega áskorun til að sigrast á þeirri miðaldrakrísu sem hlyti að fylgja þessum virðulega aldri. Um leið og þetta samtal fór af stað glotti sonurinn Birnir Vagn Finnsson út í annað og sagði að eina vitið væri að hann skoraði á mig í tugþraut,“ skrifar Finnur á Facebook síðu sína.

Stífar æfingar – stífur eftir æfingar!

„Þetta var auðvitað allt of klikkuð hugmynd til að hægt væri að hafna henni og þó ég hafi oftar en einu sinni spurt mig að því síðasta árið hvað ég var eiginlega að hugsa,“ segir Finnur, enda tugþraut ekki endilega ætluð tæplega fimmtugum skrokkum sem hafa enga fyrri reynslu af svona átökum! Hann hafi þó vitaskuld ekki getað bakkað út. Nú er svo komið að keppninni eftir stífar æfingar undanfarna mánuð, segir Finnur, en bætir við: „Þetta er reyndar mest þannig að ég er stífur eftir flestar æfingar...“

Finnur segist helsta markmið sitt að lifa af, sérstaklega stangarstökkið! Hann reiknar síður með að met verði sett – nema þá með öfugum formerkjum! – en hann hlakki samt verulega til og ef einhverjir vinir og vandamenn skyldu vilja líta á þá feðga geri þeir ráð fyrir að keppnin standi yfir frá klukkan 11.00 til 15.00 hvorn dag. Eiginkona hans og móðir Birnis, Kristín Sóley Björnsdóttir, verður mótsstjóri og yfirdómari.

Vill styrkja UFA

Finnur þakkar Ungmennafélagi Akureyrar (UFA) fyrir að sýna þessu „brambolti“ hans skilning en hann hefur fengið að æfa innan um „alvöru“ iðkendur eins og hann orðar það.

„Fyrir það kann ég félaginu bestu þakkir og finnst tilhlýðilegt að gera þetta mót að einhvers konar áheitamóti þar sem öll áheit renna beint í öflugt unglingastarf félagsins, til kaupa á ýmiss konar áhöldum sem stöðugt þarf að endurnýja. Ef þið sæjuð ykkur fært að heita einhverju smotteríi á okkur feðgana yrðum við afskaplega þakklátir og við munum sjálfir bæta við mótframlagi til að þakka fyrir fóstrið,“ skrifar Finnur.

Hann bendir fólki á að greiða megi beint inn á reikning UFA:

  • Reikningur 0566 - 26 - 007701
  • Kennitala 520692-2589