Fara í efni
Mannlíf

Afleit frammistaða og KA/Þór steinlá

Hræðilegur fyrri hálfleikur varð Íslands- og bikarmeisturum KA/Þórs að falli þegar liðið sótti Hauka heim í dag í Olís deildinni, efstu deild Íslandsmótsins í handbolta. Haukar sigruðu 34:27 eftir að hafa mest náð 12 marka forystu.

KA/Þór steinlá líka í síðustu umferð; tapaði þá 27:20 fyrir Stjörnunni í Garðabæ og eins gott að leikirnir eru ekki fleiri á þessu ári. Liðið mætir næst toppliði Fram 8. janúar en þangað til gefst tími til að hlaða batteríin. Vonandi verður Rut Jónsdóttir þá komin á ferðina á ný; hún hefur verið meidd undanfarið og liðið hvorki fugl né fiskur án hennar. Þá var markvörðurinn Matea Lonac ekki með í dag; var óleikfær eftir höfuðhögg sem hún fékk í síðasta leik, en þess ber að geta að Sunna Guðrún Pétursdóttir stóð sig vel í markinu í dag.

Ótrúlegur kafli

Stelpurnar okkar byrjuðu af miklum krafti og komust í 4:1 en 23 mínútum síðar, þegar skammt lifði fyrri hálfleiks, var staðan orðin 17:6 fyrir Hauka. Heimaliðið gerði 16 mörk gegn tveimur á þeim kafla. Lyginni líkast!

Alveg sama var hvað leikmenn KA/Þórs reyndu, ekkert gekk upp fyrr en í blálokin; meistararnir gerðu þrjú síðustu mörk fyrri hálfleiks og að honum loknum var staðan því 17:9.

Fyrri hluti seinni hálfleiksins var engu skárri og um hann miðjan voru Haukar 12 mörkum yfir, 26:14. Eftir það minnkaði bilið á milli liðanna töluvert en KA/Þór eygði þó aldrei möguleika á sigri.

Þreyta og meiðsli

Andri Snær Stefánsson, þjálfari KA/Þórs, benti á hið augljósa þegar Akureyri.net ræddi við hann í kvöld: Afleitur fyrri hálfleikur hefði reynst liðinu rándýr. Boltinn hefði tapast allt of oft, liðið verið lengi til baka og vörnin ekki góð. „Í seinni hálfleik prufuðum við ýmislegt en náðum aldrei almennilegu áhlaupi. Þetta var virkilega súrt því við ætluðum okkur miklu meira í þessum leik,“ sagði þjálfarinn.

„Það má segja að Evrópukeppnin hafi tekið sinn toll, leikmenn eru þreyttir og nokkrir meiddir eftir þétt handboltaprógram hjá okkur,“ sagði Andri Snær. „Það má segja að það sé gott fyrir okkur að fá jólapásu í Íslandsmótinu. Nú eru fjórar vikur í næsta leik og við þurfum að nota tímann vel í að vinna í okkar málum, ná okkur heilum og æfa vel að auki,“ sagði Andri.

Mörk KA/Þórs: Martha Hermannsdóttir 7 (3 víti), Unnur Ómarsdóttir og Aldís Ásta Heimisdóttir 5 hvor, Rakel Sara Elvarsdóttir 4, Hulda Bryndís Tryggvadóttir 3, Hildur Lilja Jónsdóttir 2 og Ásdís Guðmundsdóttir 1.

Sunna Guðrún Pétursdóttir varði 16 skot. 

Smellið hér til að sjá alla tölfræðina í leiknum.