Fara í efni
Mannlíf

Áfallastreituröskun

Fræðsla til forvarna - XVIII

Áfallastreita er orð sem notað er yfir vanlíðan í kjölfar áfalla. Þá er átt við andlega vanlíðan eins og ótta og óöryggiskennd og oft fylgja með líkamleg óþægindi eins og svimi, höfuðverkur, kviðverkir, þyngsli fyrir brjósti og svefntruflanir. Einkennin ganga yfir af sjálfu sér á nokkrum vikum. En ef áfallið hefur verið mjög alvarlegt eða einkennin halda áfram að versna og liðinn er a.m.k. mánuður þá er talað um Áfallastreituröskun sem á ensku nefnist PTSD sem stendur fyrir Post Traumatic Stress Disorder. Þetta er sjúkdómsgreining sem er lík alvarlegri kulnun eða sjúklegri streitu en er þó ekki alveg eins. Áfallið er í skýrri tímatengingu og alvarlegra en einstakir álagsþættir kulnunnar og einkennin hafa tilhneigingu til að verða langvinn og geta verið mjög truflandi. Þó að einkennin séu bæði andleg og líkamleg þá eru þau öðru vísi en við kulnun. Dæmigert er að endurupplifa (Re-experiencing) áfallið og sumir upplifa skyndileg og óþægileg minningarbrot (Flashbacks) eða fá hræðilegar martraðir (Nightmares). Margt bendir til að bein áhrif á heilavefinn séu annars eðlis en við kulnun. Líkamleg endurviðbröð eins og skjálfti, verkir, sviti og köfnunartilfinning eru líka algeng.

Sterkar neikvæðar tilfinningar geta komið fram eins og sjálfsásakanir, vantrú, skömm, biturð, og að geta ekki sætt sig við eða hætt að hugsa um það sem gerðist. „Hvað hefði ég getað gert öðru vísi eða betur?“

Viðbrögð sumra er að forðast allt sem getur minnt á atburðinn, forðast að hitta fólk sem var á staðnum eða fara aldrei þangað aftur. Aðrir halda sér ofurvirkum við allt annað til þess að þurfa ekki að hugsa um vondu atburðina. Svo eru þeir sem ómeðvitað eða meðvitað dempa tilfinningarnar, láta sem ekkert hafi gerst. Auðvitað eru þessi ólíku viðbrögð hluti af varnarháttum okkar og ekki að öllu leyti sjálfráð.

Ein tegund viðbragða til viðbótar er að vera stöðugt viðbúinn því versta, vera áhyggjufull og á nálum og ætíð á verði eins og nýtt áfall sé sífellt yfirvofandi. Þeir sem verða svona eiga erfitt með slökun, einbeitingu og svefn. Þá geta líka vaknað upp óþægilegar minningar um fyrri, svipuð áföll.

Þannig getur maður fest í vítahring vanlíðunar áfallastreituröskunar sem síðan getur leitt til áráttukvíða, sjúklegs þunglyndis, svefnraskana, aukinnar áfengisnotkunar og margs konar óþægilegra og óttavekjandi líkamlegra einkenna eins og þreytu, svima, verkja í höfði, brjósti og kvið.

Sem betur fer eru til árangursíkar meðferðir en sjálf eigum við að gera allt sem við getum til að endurheimta tilfinningu um öryggi og að reyna, með aðstoð, að ná stjórn á aðstæðum.

Það er mikilvægt að læra á einkennin og skilja þau og ná leikni í að bregðast við þeim og að hugsa vel um sjálfan sig og aðra. Sjálf getum við þannig gert mjög mikið. Stuðnings- og samstalmeðferðir gera mikið gagn og ef þörf er á sérhæfari meðferðum þá eru í boði áhrifamiklar samtalsmeðferðir eins og Hugræn atferlismeðferð (CBT: Cognitive Behavioural Therapy) og Hugræn úrvinnslumeðferð (CPT: Cognitive Processing Therapy).

Lyfjameðferð kemur stundum til greina til þess að tryggja svefn, gefa tímabundna róun, ef nauðsynlegt er, eða sem vörn gegn sjúklegu þunglyndi í uppsiglingu. Það er yfirleitt best að fara varlega með geðlyf í svona stöðu og enginn ætti að reyna eigin efnameðhöndlun hvort sem það er með lyfjum eða áfengi.

Ráð til þeirra sem orðið hafa fyrir alvarlegu áfalli:

  • Það er ekki veikleiki að finna breytingar á líðan, hugsun eða hegðun.
  • Það felur í sér styrkleika að gera sér grein fyrir þeim áhrifum sem áföll og álag hafa á okkur.
  • Aðstæðurnar eins og þær eru núna eru þegar farnar að hafa andleg áhrif.
  • Ræddu málin opið.
  • Vertu vel upplýst(ur) um atburði og aðstæður.
  • Forðastu einangrun og þiggðu aðstoð vina og fjölskyldu til að missa ekki tengsl.
  • Stundaðu reglulega hreyfingu þó þú ráðir aðeins við mjög lítið núna.
  • Ekki hætta í kórnum, klúbbnum eða því sem þú stundar reglulega þér til ánægju.
  • Reyndu að rjúfa vítahringi neikvæða hugsana og hegðunar.
  • Sýndu sjálfri þér eða þér sjálfum mildi því að ofurviðkvæmni er eðileg og einnig að það taki tíma að ná sér aftur.
  • Sæktu þér sérhæfða meðferð ef vanlíðan er það alvarleg að hún truflar þig daglega og dvínar ekki á 6-8 vikum.
  • Leitaðu aðstoðar gegn þunglyndi, kvíða og fíknivanda ef þörf er á.
  • Engin stórræði standa lengi, þetta mun ganga yfir, misstu ekki vonina um betri tíma og góða líðan á ný.

Ólafur Þór Ævarsson er geðlæknir