Fara í efni
Mannlíf

Ævintýrið um Gutta og Selmu sett á vefinn

Leikritið um systkinin Gutta og Selmu, sem Draumaleikhúsið setti upp fyrir nokkrum misserum og tekið var upp á síðasta ári, verður birt á vefnum í dag. Þá getur hver sem er notið þess að hlusta á leikritið.

Draumaleikhúsið er sjálfstætt starfandi leikhús sem Pétur Guðjónsson stofnaði og var ævintýrið um Gutta og Selmu það fyrsta sem sett var á svið; Pétur og hans fólk sýndi verkið í Laugarborg á Handverkshátíðinni á Hrafnagili árið 2018, og síðar á barnamorgni í Hofi í samvinnu við Menningarfélag Akureyrar. 

Segja má að Draumaleikhúsið sé stofnað upp úr leikhópnum Grímunum, sem setti upp þrjú verk á Akureyri fyrir nokkrum árum; fyrst Berness, já takk & franskar á milli; þá Gúgglaðu það bara og loks Tuma tímalausa í álfheimum.

Leikritið um Gutta og Selmu var tekið upp á síðasta ári; leikarar tóku upp á heimilum sínum í samkomubanni og allt var svo sett saman á einum stað. „Á tímum þar sem flestir voru í einangrun, var útvarpsleikhúsið tekið upp á Akureyri, Danmörku, Reykjavík og Sauðárkróki. En allt hefur sinn tíma og nú er komið að því að hlustendur fái að njóta. Allir gáfu vinnuna við upptökur og berum við þeim okkar bestu þakkir. Enda er þetta útvarpsleikhús fyrir ykkur, alveg ókeypis,“ segir á heimasíðu leikhússins.

Með helstu hlutverkin, Gutta og Selmu, fara Eyþór Daði Eyþórsson og Birgitta Björk Bergsdóttir.

Smelltu hér til að fara á heimasíðu Draumaleikhússins