Fara í efni
Mannlíf

Ævintýraleg frásögn Aðalsteins af tveimur Grænlandsferðum

Aðalsteinn Árnason, verslunarstjóri Icewear á Akureyri, var í hópi Íslendinga sem gekk þvert yfir Grænlandsjökul nýverið. Hann skrifaði magnaðan pistil á Facebook síðu sína um ferðina, og um ferð til Grænlands fyrir rúmum tveimur áratugum þar sem hann var hætt kominn. Aðalsteinn gaf Akureyri.net góðfúslegt leyfi til að birta skrif sín. Pistillinn birtist hér í heild.
_ _ _

  • Aðalsteini notar gælunöfn ferðafélaganna í greininni, en í ferðinni árið 2000 voru með honum í för þeir Leonard Birgisson, Halldór Halldórsson, Ólafur Tryggvi Ólafsson og Sigurður Hólm Sæmundsson.
  • Í göngunni yfir jökulinn um daginn voru ferðafélagar hans  Vilborg Arna Gissurardóttir, Brynhildur Ólafsdóttir, Hermann Þór Baldursson, Sibylle Köll, Steinn Hrútur Eiríksson og Karen Kjartansdóttir.

_ _ _

Maí 2000, skammt frá Einar Mikaelsen fjalli á austurströnd Grænlands.

Ég losaði mig úr öryggislínunni.

Félagar mínir voru nýkomnir upp á íshrygginn, og sestir móðir í snjóinn. Þeir höfðu lagt síðar af stað frá Grunnbúðum okkar og dregið þyngri búnað upp fjallið.

Mig vantaði búnað úr bakpokanum mínum, sem lá á mörkum þess svæðis sem ég hafi sjálfur úrskurðað sem tryggt öryggissvæði. Allt í kring voru sprungur í jökulísnum, hryggir og há fjöll. Við vorum einir þarna, enga björg að fá.

Á þessum tíma var ég liðtækur Telemark skíðamaður. Laus úr línunni beindi ég skíðunum niður brekkuna, sökk í stöðuna og setti þrýsting á neðra skíðið. Það tók við sér og beindi mér í fallegum boga aftur inn að öryggissvæðinu.

Þegar ég átti meter eða tvo eftir að Hadda félaga mínum brast snjórinn undan fótum mér.

Nú rúmum 20 árum síðar sit ég hér við tölvuna og búinn að senda búnað til Grænlands á ný. Nú skal jökullinn þveraður á gönguskíðum. Fram undan eru a.m.k. 20 dagar á jökli. Væntanlega fleiri.

Ég kastaði mér fram og náði að snerta hendurnar á Hadda. Hann var eldsnöggur til og henti sér á móti mér og við snertust aftur. En ekkert grip. Ég hrapaði.

Ég spyrnti í slétta ísveggina en viðnámið var ekkert, ég féll niður á hlið.

Ekkert högg. Aðeins myrkur, þykkur þungi, Þögn. Þeir einir vita sem reynt hafa. Umlukinn svörtu þurru blóði. Myrkur.

Lífsviljinn dró mig til baka. Andardráttur. Ég saup hveljur, ruddi snjó úr vitum mér. Ég var á lífi.

Snjór hrundi ofan á mig og ég fastur í sprungunni. Ofsareiði. Var mér ætlað að kafna eftir að hafa lifað af fallið? Ég barðist um, hægri höndin reif upp snjó og skýldi vitunum fyrir fallandi snjó og ís. Þegar hruninu létti reigði ég mig upp og sá að ég var hulinn snjó og neðan við mig í sprungunni var svart tóm. Gap, Ginnungagap. Hvort sprungan var 10 metrum dýpri þar eða 100 metrum dýpri, veit ég ekki og kemst ekki að úr þessu. Hins vegar fór um mig svartur kuldi, því neðar vildi ég ekki.

Meðan ég var að átta mig og takast á við óttann, ofsareiðina og adrenalínið í blóði mér þá heyrði ég stöðug köll ofan af sprungubarminum.... STEINI...STEEEIINI.....STTTEEEIIINNNIIII. Félögum mínum var ekki rótt þarna uppi í kaldri miðnætursólinni.

Ég leit í kringum mig í sprungunni og mér til mikils léttis þá sá ég að ég hafði dregið kaðal af brúninni niður með mér í fallinu. Endinn var svo nærri að ég gat teygt mig í hann og ég ætlaði að hafa snör handtök og húkka honum í klifurbeltið mitt. Ég óttaðist það mikið að renna neðar, í svart gap Ginnunga. Því miður þá var ég ófær um að festa í klifurbeltið, sökum þess hversu skorðaður ég var í sprungunni. Því vafði ég kaðlinum eins og best ég gat um hægri hendi og tryggði að eg gæti hangið í hnútnum ef ég rynni af stað á ný.

Meðan á þessu stóð var áframhaldandi háreysti frá sprungubrúninni og ég man það skýrt hversu pirraður ég var á mínum bestu vinum fyrir að halda ekki kjafti meðan ég tryggði mig á sprungubotninum. Gátu þeir ekki gefið mér smá andrúm til að klára mín mál áður enn ég sinnti áhyggjum þeirra.

Mín fyrstu orð til þeirra voru einföld skipun. TRYGGIÐ KAÐALENDANN. Ég vildi ekki fá lausan kaðalinn yfir mig. Líflínu mína. Það eina sem tengdi mig upp úr þessu kalda helvíti.

Ég veit hversu glaðir þeir voru að heyra rödd mína berast upp úr hyldýpinu, og eftir á þá var ég með mikið samviskubit yfir því að pirrast svona á sprungubotninum, en mér til varnar þá var allt tilfiningakerfið á yfirkeyrslu þessa nótt.

Ég gat mig hvergi hrært og því ákváðu strákarnir að senda Óla Óla niður til min. Hann seig niður furðufljótt enda valin maður í hverju rúmi á brúninni. Ég held að sjaldan hafi verið viðhöfð hraðari og fumlausari störf í nokkurri sprungubjörgun fyrr og síðar. Í allt tók það strákana ekki nema ca. 30 mínútur að rigga upp sigkerfi með margfaldri doblun og ná mér og Óla aftur upp á yfirborðið.

Þegar Óli náði til mín þá var hann í vandræðum með að komast að mér sökum þrengsla og varð að nota ísexina til að höggva frá mér og klifurbeltinu. Án þess hefði hann ekki getað húkkað í mig. Hann rabbaði við mig og athugaði hvort ég væri slasaður, brotinn eða bramlaður. Ég tjáði honum að ég væri í góðu lagi, en fastur. Þegar búið var að tryggja mig við yfirborðið var gefin skipun um að hífa ... það var vanhugsað enda ég enn skorðaður milli ísbjarganna og togið gerði ekki annað enn að snúa upp á líkama minn og olli mér miklum sársauka. Skipunin um að stoppa kom jafnhliða mínu fyrsta veini.

Óli hóf störf á ný með ísöxinni og hjó ís frá mér svo að ég losnaði úr gripi jökulsins. Ég skalf eins og ræfilstuska þarna sem ég lá hálfhulinn snjó og ís. En kuldinn er fljótur að ná tökum á manni í þessum aðstæðum. Nístir hreinlega merg og bein á nokkrum mínútum. Sígur úr manni kraft og dug.

Laus við skíði af fótum mér, ís úr vitum og dauðasæng ís og klaka af kroppnum drógu drengirnir mig upp til lífsins á ný.

Faðmlögin þegar upp var komið eru þau heitustu og innilegustu sem ég hef upplifað á lífsleiðinni. Haddi reif sig úr heitri dúnúlpunni sinni og skellti mér í hana. Betri flík hef ég ekki komist í og skjálftinn rénaði furðu fljótt enda ekki annað hægt en að hitna í faðmlögum við þessa góðu menn.

Forsaga þessa máls er sú að Björgunarsveitinni Súlum barst hjálparbeiðni vegna slyms á Grænlandsjökli. Maður hafði fallið í sprungu og látist, en félagar hans komust ekki að líkinu og við beðnir um að koma og sækja líkið. Það var auðsótt mál og strax settur saman hópur liðtækra ungra manna sem áttu að ráða við verkefnið. Þetta voru auk undirritaðs. Siggi Sæm, Óli Óla, Halldór Halldórsson og Leonard Birgisson. Allt kunnir fjallamenn hér norðanlands og miklir spottakarlar.

Við flugum á Constable Point og þaðan með skíðaflugvél inn að slysstað við Kronenborg jökul. Þar komum við upp grunnbúðum og ákváðum að hefjast handa strax á fyrsta kvöldi enda veðrið stillt og tiltölulega hlýtt. Þetta var snemma í maí og því nær dagbjart alla nóttina sem fram undan var.

Félagi þess látna Ronald Naar, hollenskur atvinnu pólfari og fjallamaður, kom með okkur til að leiðbeina á slysstað. Við Siggi Sæm fórum upp jökulinn með honum. Létt búnir og félagar okkar komu í rólegheitunum í slóðina með þyngri búnað. Erum við þá komin að upphafspunkti þessarar frásagnar.

Ég kom óslasaður upp úr sprungunni. Það heggur nærri kraftaverki þar sem ég féll a.m.k. 25 metra lóðrétt niður í ísinn. Til að setja það í samhengi er það álíka og að hoppa fram af áttundu hæð í blokk og lenda á hörðu malbikinu. Það eru ekki margir svo gæfusamir að ganga óslasaðir frá slíkri upplifun.

Eftir óhapp mitt og giftusamlega björgun, héldum við störfum okkar áfram og sigum niður í sprunguna þar sem líkið var. Hún var sýnu ófrýnilegri en mín sprunga. Óstöðugir barmar og grýlukerti hangandi á víð og dreif um veggina. Við sigum 35 metra niður en þar þrengdist hún svo mikið að ekki varð neðar farið nema með miklu broti og áhættu. Við námum merki frá snjóflóðaýli hins látna og sáum önnur ummerki um fallið.

Ronald Naar var hrærður eftir mína björgun og umhugað um öryggi okkar björgunarmannanna. Eftir að við höfðum leitað af okkar allan grun á 35 metra dýpi bað hann okkur að fara ekki lengra og taka ekki frekari áhættu með líf okkar fyrir það eitt að ná upp líki. Hann lýsti því yfir að vinur hans væri sáttur við legstaðinn þó svo hann hefði kosið lífið, hefði það verið í boði.

Þverun Grænlandsjökuls

Maí 2022, vesturströnd Grænlands.

22 árum síðar er ég aftur komin til Grænlands. Nú skal jökulinn þveraður á skíðum frá vestri til austurs. Fram undan er tæplega 600 km skíðaferð og allra veðra von.

Ásamt föngulegum hópi leiðangursmanna, alls 8 talsinns, er ég staddur í Nuuk. Höfuðborg Grænlands. Örn flýgur yfir höfði okkar og ísbjarnarfeldur hangir til þerris á verönd nærliggjandi húss. Við ákveðum að þetta séu gæfumerki.

Frá Nuuk er haldið til Kangerlussuaq og þaðan degi síðar með fjallabíl að rótum jökulsinns. Í akstrinum gafst loks tóm til að íhuga stöðuna. Við höfðum umpakkað og margraðað farangri og nesti á sem bestan máta og allur undirbúningur var að baki. Framundan var ís og auðn. Á mig runnu tvær grímur. Var ég undirbúin undir leiðangur af þessari stærðargráðu. Var ég nægjanlega sterkur. Líkamlega og andlega. Gæti ég horft framan í vini og vandamenn ef ég gæfist upp ? Efinn nagar og dregur úr manni mátt.

Of seint að snúa við. Nú var ekkert nema að taka sig saman í andlitinu og vera upplitsdjarfur. Ég vissi að fram undan var skriðjökullinn og að uppgangan yrði erfið næstu daga. Veruleikinn var þó umfram væntingar. Við komumst einungis tæpa 4 km á dag fyrstu 2 dagana. Leiðin lá um Völundarhús ísbjarga, ísfjalla og ísdala. Upp íshrygg eftir rásum sem vatn hefur sorfið niður, yfir hryggi og samstundis niður aftur þannig að það sem áunnist hafði í hækkun, hvarf eins og dögg fyrir sólu. En áfram var barist og haft fyrir hverjum hæðarmeter.

Þessa fyrstu daga sameinaðist hópurinn í að berjast í gegnum ísborgirnar. Betra hópefli er tæpast til. Þegar við loks á 3ja degi komumst upp fyrir bláísinn var eins og við værum öll gamlir vinir. Ekkert sameinar betur en blóð, sviti og tár.

Minn lágpunktur í þessum leiðangri kom fyrr en ég ætlaði. Um eftirmiðdaginn, þennan 3ja dag, dróst fyrir slysni kaðall undir púlkuna mína sem gerði dráttinn óbærilega þungan. [Púlka er „snjóþotan“ þar sem garparnir geyma farangur og draga á eftir sér]. Ég leit aftur á púlkuna og sá ekkert óeðlilegt, ég spurði ferðafélaga minn hvort farið eftir púlkuna væri eðlilegt. Hélt kannski að hún væri brotin eftir átökin í bláísnum. En nei, allt virtist vera eins og það átti að vera.

Ég kippti í púlkuna og kom henni tæpast áfram. Félagar mínir fjarlægðust og ég hélt ekki í við hópinn. Óttinn tók sér bólfestu í hjarta mér. Ég var ekki að hafa þetta. Ég var ekki undirbúinn. Ég neitaði að gefast upp. Ég gæti ekki verið svona mikið verri en allir hinir. Í 30 mínútur barðist ég við púlkuna og sjálfan mig. Ég var rennblautur af svita og áreynslu. Mér til mikils léttis var stoppað til að hvílast og sá ég þá hvers kyns var. Gleðin gleypti óttann og efinn hvarf. Fyrst ég gat með miklum erfiðismunum dregið púlkuna með kaðal bremsuna á þá átti ég fullt erindi í þennan hóp.

Dagur 3-6

Skipulag og endurtekning tekur við af fumi og fáti fyrstu dagana. Við Hermann deilum tjaldi með því stórkarlalega nafni Hermannshöllin. Við viðhöfum alltaf sama skipulagið við að tjalda og að taka niður tjaldið. Alltaf eins og að við séum að gera þetta í fárviðri. Svona æfing er óborganleg þegar á þarf að halda. Gríðarlega mikilvægt að koma sér upp verklagi sem heldur í hvaða veðri sem er. Of seint er að æfa þegar bylurinn skellur á.

Frá fyrsta degi komum við okkur upp verklagi við allar hversdagslegar athafnir og gekk sambúð okkar hnökralaust fyrir sig allan leiðangurinn. Fyrir það ber að þakka, enda ekki sjálfgefið að nær ókunnugir menn geti búið í svona nánu sambýli við erfiðustu aðstæður, í þetta langan Tíma. Hér myndaðist vinskapur sem mun halda um langa framtíð. Takk Hermann.

Dagleiðir lengjast en þó höfum við einungis farið 12 km á liðnum 2 dögum. Betur má ef duga skal.

Skíðafærið er enn verra en ég gerði mér í hugarlund. Það er líkast því að við séum að draga púlkurnar á þurrum sandpappír, slíkt er viðnámið í köldum og þurrum snjónum. Þetta er vont og venst illa. Þessi þurri snjór hélt alla leiðina yfir jökulinn og ekki hægt að segja að við höfum upplifað rennsli í 30 daga. Það var í raun ekki fyrr en á 31sta degi sem eitthvað rann undan okkur á síðustu kílómetrunum austur af jöklinum.

Skyndilega heyrist vein og umgangur í tjaldi Villu og Brynku. Ég lít út og stendur þá eldsúlan upp úr fortjaldinu hjá þeim. Brynhildur var við bensínprímusinn og Vilborg inni í tjaldi þegar prímusinn gaus skyndilega. Vilborg hendist út um bakdyrainnganginn og fram fyrir tjaldið, rífur fortjaldið frá og forðar því frá að brenna eða bráðna yfir Brynhildi. Naumt en það slapp fyrir horn. Hefði verið skelfilegt að laska tjaldið verulega í upphafi ferðar.

Bensínprímusar eru þeir einu sem virka í því frosti sem við erum að eiga við. En þeir eru ólíkindatól og ber að umgangast með mikilli virðingu. Sjálfur lenti ég í óhappi degi síðar sem hefði getað farið illa.

Ég var að fylla á bensínflöskur og freistaðist til að pumpa upp þrýsting í flöskuna áður en ég tengdi prímusinn við flöskuna. Gleymdi að loka fyrir bensínlokann og sullaði hreinsuðu bensíni yfir flöskuna og á hanskana sem ég notaði við verkið. Nú var ekki um annað að ræða enn að hreinsa allt upp og þurrka vel áður en ég bar eld að prímusnum. Allt gekk vel, prímusinn purraði og ég setti ketilinn yfir. Um leið og ég hagræddi honum yfir eldinum barst eldur í bensínblautan vinnuhanskann og hægri höndin skíðlogaði. Eðlishvötin tók yfir og ég reyndi að kæfa logann með þeirri vinstri, en hugði ekki að því að sá hanski var einnig rakur af bensíni. Þarna sat ég einn í fortjaldinu og báðar hendur eins og bálkestir.

Ekki annað að gera enn að grafa þær í snjó, sem nóg var af, og kæfa bálið. Þetta gekk eftir og ég ósár, en hafði skyndilega öðlast aukna virðingu fyrir þessum lífsnauðsynlegu tækjum.

Dagur 7-14

Dagleiðir lengjast hægt og rólega og frostið herðir.

Að kvöldi áttunda göngudags kom Brynhildur okkur að óvörum með því að færa okkur eina ferska appelsínu í tjaldið. Hún var að vísu gaddfreðin, en við þýddum hana upp við prímusinn og gæddum okkur á ferskum safanum. Guðdómlegt.

Blinda hvíta flesta daga. Rífur af sér endrum og sinnum, annars renna himin og jökull saman í hvítan vegg. Ekkert lýsir þessu betur en orð Villu: „þetta er eins og að rata í mjólkurglasi”. Göngum alla daga eftir áttavita enda er það eina tækið sem er óskeikult í svona aðstæðum. Villa eða Brynka fremstar og ég yfirleitt þar á eftir og hóa ef mér finnst þær bera of mikið af leið. Nær ógerningur er að halda uppi eðlilegum gönguhraða þegar enginn sér hvað er fram undan,

Kaldur en hægur vindur að suðaustan á móti okkur á gangi upp brekkuna, alla daga og í raun alveg upp á hásléttuna. Það má segja að við höfum gengið uppi í mót í 22 daga alveg uppá hæsta punkt jökulsins, 2500 metra yfir sjávarmáli, og alltaf haft vindinn í fangið. Það gerði lífið ekki léttara.

Yfir Grænlandi er mjög stöðugt háþrýstisvæði sem snýr vindinum réttsælis í kringum háþrýstimiðjuna. Því fengum við vindinn ská í bakið þegar við byrjuðum að lækka okkur eftir hæsta punkt, en að sama skapi lentum við í gríðarlegum erfiðleikum í baráttunni við rifskaflana sem eru skapaðir af sama loftstraumi.

Dagur 15 –25

Náðum loks fyrsta áfanga í gær, DYE 2 ratsjárstöðin sem Bandaríkjamenn reistu á sjötta áratugnum og yfirgáfu svo í lok Kalda stríðsins. Ótrúlegt mannvirki sem hefur rekið yfir 1 km með ísnum frá því hún var reist og er að sökkva hægt og örugglega í jökulinn. Við ætluðum okkur inn í stöðina eins og fyrri leiðangrar hafa gert, en nú hafði engin komið þarna að síðan 2019 sökum Covid og allir inngangar komnir á kaf í snjó og ís. Mögulega er hægt að príla eftir þakinu að svalahurðum, en við ákváðum að það væri ekki áhættunnar virði.

Dagur 15 var kærkominn hvíldardagur þar sem úti geisaði stormur og snjófjúk. Við Hermann , tjaldfélagi minn, nutum hvíldar eftir stanslaus átök undanfarinna daga. Lágum meira og minna hreyfingarlausir allan daginn. Átum og dormuðum, og það var kannski eins gott því þetta var eini hvíldardagurinn á 31 dags göngu yfir þennan hvíta risa.

Degi síðar voru allir óþreyjufullir að komast af stað á ný. En þá gerðist hið óvænta. Þjóðvarðlið Bandaríkjanna er enn með aðsetur nærri ratsjárstöðinni aflögðu og reka þar æfingaflugvöll fyrir lendingar við erfiðustu aðstæður. Skyndilega birtist snjósleði á fullri ferð í átt til okkar og með honum tilkynning um að vél væri í aðflugi og okkur meinað að fara yfir flugbrautina fyrr en vélin væri lent og hefði tekið á loft aftur. Skemmst er frá því að segja að vélin kom í nokkur yfirflug áður en hún lenti og byrjað var að afferma hana. Við notuðum tækifærið og skutumst í óleyfi yfir brautina og það stóð á endum að önnur vél kom í yfirflug um leið og við krossuðum flugbrautina.

Algjörlega súrealískt að lenda í nærri 2ja klst bið upp á víðernum Grænlandsjökuls vegna flugumferðar. Kaninn má þó eiga það að eftir fjölda lendinga og yfirflugs þá kvöddu þeir okkur með glæsilegu lágflugi og veifuðu vængjunum að skilnaði, svo nærri jörðu að þverbrotna bókin um öryggisreglurnar hefði tæpast komist á milli.

Hér á háslettunni upplifum við okkar köldustu nætur. Næturfrostið fer iðulega undir –30 C og gælir á stundum við -40 C. Við búum okkur vel í pokana, tvö sett af ullarnærfötum, þykka ullarpeysu, dúnbuxur og dúnsokkar yfir stóru ullarsokkana, og þykka ullarvettlinga á puttana. Að ógleymdri dúnúlpunni sem er að verða staðalbúnaður þegar farið er í svefnpokann. Svona búinn nær maður að sofa vel og hvílast. Þó vöknum við reglulega og færum nefbroddinn ofan í pokann til að kala ekki á greyinu svona yfir blánóttina.

Við vorum ekki ein á jöklinum. Tveir Belgar, atvinnuklifrarar, lögðu upp á sama tíma og við og hugðust skíða yfir jökulinn, róa á kajökum suður með ströndinni og frumfara í framhaldi af því leið í einum af svakalegri klettaveggjum hér á austur Grænlandi. Þeir fóru hægar af stað en við þar sem með þeim voru kvikmyndatökumenn sem fylgdu þeim fyrstu 3 dagana í gegnum bláísinn. Við bjuggumst alltaf við að þessir ungu menn mundu geysast fram úr okkur enda virtust þeir í fantaformi. Það varð ekki raunin og nú átta dögum eftir að við komumst yfir, frétti ég að þeim hefði verið bjargað af jöklinum í dag, 100 kilómetra frá jökulsporðinum. Hvað fór úrskeiðis veit ég ekki enn.

Annar hópur lagði af stað töluvert á eftir okkur. En það voru Íslendingar á leið vestur jökulinn, þ.e. á móti okkur. Þeim hafði verið flogið upp á jökulinn austan megin og þau því losnað við mestu torfærurnar og erfiðustu hækkunina. Þennan hóp hittum við á degi 24 og urðu þar miklir fagnaðarfundir, enda ekki á hverjum degi sem tveir íslenskir leiðangrar hittast á svo fáfarinni slóð sem þessari.

Á degi 25 náðum við loks að kljúfa 30 km dagleiðarmúrinn. Það var verulega ánægjulegt, en blandað ótta um framhaldið þar sem ég fékk hræðilega verki í vinstri fótinn og gat tæpast skíðað þegar verst lét. Þetta var einhverskonar mar við bein eða taugar og gaf mér rafmagnspílur upp úr öklanum. Svo snöggar og sárar að ég gat engan vegin hamið bölvið og ragnið sem rann út úr mér.

Brynka og Villa sinntu mér vel og við hjálpuðumst við að teipa filt við hælin á mér til að minka álagið og það var eins og við manninn mælt að verkirnir hurfu hægt og hljótt og varð ég þeirra lítt var eftir þetta. Guði sé lof og dýrð.

Dagar 26-29

Frá því að við komumst yfir hæsta punkt jökulsins hafa rifskaflar æ oftar orðið á vegi okkar. Nú er svo komið að við vitum að þeir verða á vegi okkar allt niður í 1.500 m hæð, en þær upplýsingar fengum við frá hollenskum leiðangri sem var einhverjum dögum á undan okkur á þessu svæði. Rifskaflar myndast þar sem hvassir staðvindar herja á landslagið og liggja svo gott sem þvert á okkar leið. Þeir eru yfirleitt glerharðir með hvassar brúnir og allt að 60-70 cm háir. Þetta eru hvimleiðir skrattar þar sem berjast þarf yfir þá á skíðunum, renna niður á milli þeirra og það skal alltaf standa á endum að þegar þú ferð upp á þann næsta þá situr púlkan pikkföst aftan við þann skafl er þú komst yfir rétt í þessu. Yfirleitt dugði hressilegt átak með mjöðmunum til að kippa púlkunni af stað, en þetta dregur þrótt úr þolinmóðasta fólki.

Að vita af því að erfiðleikar dagsins verða endurteknir dag eftir dag í rifsköflum næstu dægra, er allt nema uppörvandi.

Við höfum nú gengið í 29 daga, svo gott sem hvíldarlaust. Lagt er af stað um kl. 09 eftir morgunverkin og gengið í lotum sem hver fyrir sig er 1,5 klst. löng. Pásur eru hafðar eins stuttar og hægt er og helst ekki lengri en 15 mín. Á þeim tíma þarf maður að komast yfir það að drekka og næra sig, huga að búnaði, klæðnaði og að hafa samskipti við göngufélagana. Við göngum alla daga fram til 18 eða 18.30 og taka þá við a.m.k. 2 tíma kvöldverk. Koma upp búðum næra sig og hita vatn á hitabrúsa fyrir næsta dag. Því má segja að vinnudagurinn sé alla daga frá 06 til 21. Eða 15 klukkustundir og göngutíminn a.m.k. 9 klukkustundir. Svo mikil er ákefðin að sjaldan gefst tóm til að hripa niður í dagbókina, og aldrei tóm til að grípa í bók eða spil.

Mikil undirbúningur liggur að baki svona ferð. Hvorutveggja þegar kemur að líkamlegu og andlegu þreki sem og þegar kemur að búnaði og vistum.

Ég hóf æfingar í september þegar ég hafði fengið veður af þessum leiðangri og jók ákefðina fram eftir hausti og nýju ári. Þó skal það viðurkennt hér að flestir ef ekki allir leiðangursmenn höfðu lagt mun meira í þennan þátt en ég. Og þó ég hafi komist skammlaust yfir jökulinn, þá sýp ég seðið af æfingarleysinu nú eftir heimkomu. Stöðugt þreyttur og svangur.

Þó skal því haldið til haga að ég lagði upp í leiðangurinn með allskyns álagsmeiðsli og ónot í líkamanum. Verki í vinstra hné, bólgna vöðva í vinstri hnésbót og verki í öxlum sem ég hafði ekki upplifað áður. Ég hélt þessu að mestu fyrir mig. Ætlaði að reyna að þegja verkina í hel.

En þá gerist hið ótrúlega. Eftir að verkir og eymsli höfðu ágerst fyrstu dagana, þá byrjuðu þessi einkenni að hörfa og síðar hverfa alfarið á 2 vikum. Eftir hálfan mánuð af hámarksátökum, var ég mun betri í líkamanum en þegar ég fór af stað. Líkaminn er undra tól.

Hvað viðkemur búnaði þá var ég þar mun betur undirbúinn og mundi tæpast skipta miklu út færi ég aftur á sömu slóðir. Fatnaður var að mestu frá Icewear, enda hæg heimatökin og ég hafði gaman að reyna þennan búnað við erfiðustu aðstæður. Slagorð Icewear er Útivist fyrir alla, og nú getum við bætt um betur og sagt Útivist fyrir alla, allstaðar!

Ég notaði nýja íslenska föðurlandið bæði á göngu og sem náttföt og hefði ekki viljað vera án þess í 30 C frosti. Einnig var ég með prototypur af léttum jakka og vesti sem eru fóðruð með íslenskri ull og get ég staðfest það að öndunin er frábær og einangrunin jafnast á við dún. Góð íslensk ullarpeysa undir Njáll öndunarjakka er tvenna sem engan hefur svikið og ég hef notað við ýmsar aðstæður til fjalla. Hér eru lykilorðin einangrun og öndun.

Hvað varðar skíði og púlkur, þá mæli ég eindregið með góðum riffluðum skíðum í svona leiðangra. En þeir sem kusu skíði án rifflna voru oft í vandræðum með skinnin undir skíðunum. Límið vildi gefa sig og erfitt í frostinu að bera nýtt á, enda vildi það ekki taka sig við þessar aðstæður.

Varðandi bindingar var ég með glænýjar Explorer bindingar frá Rottefella. Þær eru í ætt við nýjustu fjallaskíðabindingar og báru af öðrum bindingum í þessari ferð. Allir aðrir voru með svokallaðar NNN bindingar, hvorutveggja manual eða auto. Þessar bindingar frusu allar og flestar ítrekað þannig að það tók oft dágóðan tíma að ná hópnum úr skíðunum þegar komið var í búðir að kvöldi. Eitt sinn eyddi ég 20 mínútum með hárbeittan hníf undir sólunum á Villu við að reyna að pikka bindingarnar hennar upp. Ég veðja aleigunni upp á það að vinkona mín muni aldrei fara í svona leiðangur á NNN bindingum aftur.

Við vorum með 3 gerðir af púlkum í ferðinni, París pulk, Acua pulk og Fjellpulken. Allar með sína kosti og galla, en Acua og Fjellpulken runnu best á sléttu undirlagi, enda á meiðum. Það aftur á móti kostaði stöðugleika og þær ultu dátt í hliðarhalla eða þegar aðeins þunnur snjór var yfir harðfenni. París pulkan er einföld, ódýr og áreiðanleg. Kannski aldrei best, en einnig aldrei verst.

Einnig voru með í för 2 gerðir af sleðum, annarsvegar heimasmíðaðir trésleðar með París púlku sem botn. Þeir voru léttir og góðir í drætti, en ekki nægjanlega sterkir fyrir átökin í skriðjöklunum. Hins vegar var stór og mikill álsleði sem skaraði fram úr. Sterkur, stöðugur og burðarmikil. Rann vel og fylgdi vel í slóð göngumanns.

Gæti hugsast að einn slíkur birtist heima í bílskúr fljótlega.

Dagur 30-31

Á degi 29 barst okkur veðurspá sem var ekki vænleg. Tveggja daga mikil snjókoma og lítið sem ekkert skyggni þá dagana. Þessi spá var svo endurtekin á degi 30 og því ákváðum við að í stað þess að taka áhættu á að festast á jöklinum í 2 daga og eig þungan drátt fyrir höndum í ný föllnum snjó, að láta slag standa og ganga í einum rykk 65 km niður skriðjökulinn að jökulurðinni. Við gerðum okkur fulla grein fyrir því að þetta yrði erfitt enda okkar lengsta dagleið til þessa einungis 30 kílómetra.

Við náðum ekki að leggja af stað sökum veðurs fyrr en kl 09,30 og þótti öllum bölvað að fara svo seint af stað. Göngulotur voru lengdar í 2 klukkutíma í senn en pásum haldið í hámarki 15 mínútur. Svona gengum við allan daginn og fram á kvöld. Um kl. 22 var pása og Villa spurði hópinn hvernig við værum á okkur kominn. Þeir sem svöruðu báru sig vel og vildu klára um nóttina. Ég aftur á móti var orðin þreyttur og svangur og hafði ekki trú á verkefninu. Ég tjáði Villu hug minn og okkur samdist um að taka einn klukkutíma til og sjá þá hverju sætti..

Ég gleypti í mig síðasta orkugelið mitt og gekk af stað, fyrstur á eftir Brynku. Staðráðin í að vera ekki aumingi. Okkur öllum til happs þá fór fljótt að halla undan og við fengum fyrsta rennslið í 30 daga. Þvílík sæla og unaður, hægt og örugglega og áreynslulítið, runnum við inn í nóttina. Mér óx hugur, þrek og þor og eftir klukkutíma datt mér ekki annað í hug en að klára þetta í einum rykk.

Þó þetta hafi gengið vel í byrjun þá jókst brekkan, hraðinn og bylturnar urðu fleiri. Þegar ég var að hjálpa Brynku á fætur eftir eina slíka þá tók Hólmfríður Vala eftir því að hún lá í torkennilegum sporum sem lágu upp jökulinn. Brynka hafði hnotið um ísbjarnarslóð. Það fór um okkur hrollur í rökkrinu og næturkuldanum. Svo mikil var asinn við að komast burt að engin tók mynd af slóðinni, enda ískalt og ekki vænlegt að stoppa meira en þurfti.

Til að gera langa göngu stutta þá tókst okkur hið óyfirstíganlega að klára 65 kílómetra á sléttum sólahring. Örþreyttur en ofsakátur hópur tók af sér skíðin við jökulurðina snemma morguns á 31. göngudegi og skreyddumst við úr snjónum upp í urðina.

Að ganga á möl eftir 31 dag var furðu erfitt og hnutum við í hverju fótmáli, svo að öllum fannst vænlegast að setjast niður á stein, láta líða úr sér og losna við snjóriðuna. Sem ekkert okkar hafði upplifað áður.

Grænlandsjökull hafði verið þveraður.

Æskudraumar og áskoranir fullorðinsára höfðu verið uppfylltar.