Fara í efni
Mannlíf

Ævintýragarðurinn opnaður á morgun

Hreinn Halldórsson í Ævintýragarðinum við heimili sitt að Oddeyrargötu 17. Mynd: Haraldur Ingólfsson

Ævintýragarðurinn við Oddeyrargötu 17 á Akureyri verður opnaður á morgun. Þar hefur Hreinn Halldórsson á síðustu árum sýnt glæsilegar ævintýrapersónur sem hann hefur skapað, og verkin vakið mikla athygli bæði ferðamanna og bæjarbúa.

„Það er draumur hvers manns að skapa og miðla með öðrum. Með það í huga hef ég á síðustu árum skapað hin ýmsu verk sem eru staðsett í garðinum við heimili mitt,“ segir Hreinn í tilkynningu.

„Garðurinn er einkagalleríið mitt, lifandi undir berum himni þar sem lofthæðin er endalaus og lýsingin síbreytileg. Verkin má flest rekja til íslenskra bókmennta og ævintýra en síðustu ár hefur hugur minn og listsköpun snúið að sígildum ævintýrum sem eru mér minnisstæð frá bernskuárum mínum.“

Helena skíðadrottning – nýjasta verkið í garði Hreins við Oddeyrargötu.

Helena skíðadrottning

Eitt af nýju verkunum sem varð til í vetur er skíðakona sem ber nafnið Helena, eins og Akureyri greindi frá í síðasta mánuði. Eins og við önnur verk í Ævintýragarðinum hyggst Hreinn setja upplýsingaspjald við hlið verksins og þar mun koma fram að þetta sé Helena skíðadrottning. Þar fyrir neðan mun síðan vera textabrot úr þekktu lagi. „Ef menn tengja saman textabrotið og nafnið á skíðadrottningunni þá ætti fólki að verða það ljóst hvaðan nafnið er fengið,“ sagði listamaðurinn þá.

„Ég hef fundið fyrir áhuga fólks að skoða verkin mín og varð það til þess að fyrir þremur árum opnaði ég aðgang að garðinum mínum. Ég hef ákveðið að endurtaka þessa opnun og verður garðurinn, sem ég kalla Ævintýragarðinn, opinn alla daga í sumar frá klukkan 10:00-20:00,“  segir Hreinn. „Aðgangur er ókeypis eins og ávallt hefur verið og myndatökur leyfðar. Við flest verkin en stuttur texti bæði á íslensku og ensku með nafni verksins og úr hvaða ævintýri það er tekið.“