Fara í efni
Mannlíf

Æfingar á Stelpuhelgi hafnar á Melum

Æfingar eru nýhafnar hjá Leikfélagi Hörgdæla á leikritinu Stelpuhelgi eftir Karen Schaeffer í þýðingu Harðar Sigurðarsonar.

„Leikritið Stelpuhelgi er stórskemmtilegur farsi þar sem vinkonurnar Meg, Carol, Dot ásamt Ellie dóttir Megs hittast í bústaðnum hjá Dot,“ segir í tilkynningu frá félaginu. „Markmið helgarinnar er að hafa gaman, skiptast á sögum, drekka áfengi og fara yfir næstu bók í bókaklúbbnum, lausar við alla karlmenn. Það fer svo að flækjast þegar gengur á áfengið og vinkonurnar eru allar búnar að bjóða hver sínum karli í eftirpartý þvert á hugmyndir gestgjafans.“

Leikstjóri sýningarinnar er Gunnar Björn Guðmundsson, margreyndur á því sviði; hann hefur leikstýrt yfir 30 sýningum, fjórum áramótaskaupum og kvikmyndunum Astrópíu og Ömmu Hófí.

„Sýningin er tilvalin fyrir hópa, eins og starfsmannafélög. Mun leikfélagið bjóða uppá hópafslætti sem verða auglýstir síðar. Leikfélag Hörgdæla og fyrirrennar þess setja reglulega upp leiksýningar á Melum, sem dæmi má nefna Í fylgd með fullorðnum sem leikfélagið setti upp síðastliðinn vetur og sló heldur betur í gegn.“