Fara í efni
Mannlíf

Aðventustund með nýjum íbúum bæjarins

Ein af gleðistundum unga fólksins á aðventunni; samkoma á Ráðhústorgi þegar ljós voru tendruð á jólatrénu. Ljósmynd: Skapti Hallgrímsson

Áætlað er að allt að 150 einstaklingar hafi sest að á Akureyri á þessu ári í gegnum samræmda mótttöku flóttafólks og á morgun, laugardag, gefst íbúum Akureyrar tækifæri til að hitta hluta þessa fólks og „njóta með þeim huggulegrar fjölskyldustundar á aðventunni við piparkökuskreytingar,“ eins og segir í tilkynningu frá Rauða krossinum.

Með þessu vill starfsfólk Rauða krossins vinna gegn félagslegri einangrun og stuðla að gagnkvæmri aðlögun flóttafólks að íslensku samfélagi.

„Hluti þessa fólks hefur tekið ákvörðun um að setjast að á Akureyri til frambúðar en hluti hópsins hefur komið hingað til að leita skjóls á meðan vopnuð átök eiga sér stað á þeirra heimasvæði.“

Viðburðurinn verður í húsnæði Rauða krossins, Viðjulundi 2, frá klukkan 13.00 til 15.00. Takmarkaður fjöldi kemst að og því er nauðsynlegt að skrá sig í síma 5704270 hér á netinu.

_ _ _

Í tilkynningu frá Rauða krossinum segir jafnframt:

  • Rauði krossinn á Íslandi og öflugur mannauður félagsins í formi sjálfboðaliða gegnir stoðhlutverki í þjónustu við flóttafólk um land allt. Meginmarkmið Rauða krossins með stuðningi við flóttafólk er að efla geðheilbrigði og stuðla að félagslegum tengslum og virkni og vinna þannig að árangursríkri móttöku þess í samfélagið. Þjónusta Rauða krossins stendur öllum til boða og er án aðgreiningar.
  • Þau sem áhuga hafa á að taka þátt sem sjálfboðaliðar í verkefnum sem tengjast móttöku flóttafólks eða öðrum verkefnum Rauða krossins er velkomið að hafa samband við okkur í síma 5704270 eða með tölvupósti á netfangið robertth@redcross.is