Fara í efni
Mannlíf

Aðdragandi jólanna er yndislegur tími

Mæðgurnar Margrét Jónsdóttir og Móheiður Guðmundsdóttir. Ljósmyndir: Gunnar Sverrisson.

Í bókinni Desember, sem er nýkomin út hjá Home and Delicious, leyfa mæðgurnar Margrét Jónsdóttir og Móheiður Guðmundsdóttir á Akureyri, fólki að gægjast inn gluggann og sjá hvernig þær undirbúa jólin, eins og Margrét orðar það. 

Hjónin Halla Bára Gestsdóttir, innanhússhönnuður, og Gunnar Sverrisson, ljósmyndari eiga Home and Delicious, og hafa gefið út bækur í sama broti og Desember. Í fyrra gerðu þau bókina Heima og fengu þá meðal annars að mynda á heimili Margrétar. „Við fórum að spjalla eins og gengur og sögðum þeim að við Móheiður hefðum rætt um hve gaman gæti verið að gera jólabók. Þau höfðu ekki hugleitt það en leist vel á hugmyndina og eftir að hafa spjallað meira saman sögðust þau vera til í þetta.“

Stemningin á aðventunni

„Desember er ljósmyndabók þar sem stemningin á aðventunni er fönguð, auk þess sem við birtum um 20 uppskriftir af ýmsu sem við erum vanar að gera um jólin. Fólk fær að gægjast inn um gluggann og sjá hvernig við undirbúum hátíðina og við vonum að það veiti fólki innblástur,“ segir Margrét við Akureyri.net.

Halla Bára er ritstjóri bókarinnar og Gunnar tekur myndirnar. Eftir að mæðgurnar höfðu lagt línurnar með þeim hjónum var hafist handa. „Við byrjuðum að vinna að bókinni í nóvember í fyrra, þannig að það var orðið jólalegt hjá okkur snemma það ár af því Gunni var að mynda. Ég man að nóttina áður en Gunni og Halla komu norður kom þessi dásamlegi jólasnjór; á hárréttum tíma, eins og hann hefði verið pantaður. Það var ótrúlega fallegt.“

Jólalegt í 20 stiga hita!

Síðustu myndirnar af matnum tók Gunnar á Akureyri í sumar. „Þá var rúmlega 20 stiga hiti og vissulega var sérstakt að útbúa þessa rétti þá. Segja má að jólin hafi staðið lengi hjá okkur mæðgum en verkefnið var mjög ánægjulegt og við erum alls ekki orðnar þreyttar á jólunum. Við Móheiður erum miklar stemningskonur – miklar jólakonur, en okkur finnst aðdragandi jólanna ekki síður yndislegur tími en jólin sjálf; þá er svo gott að draga andann rólega og njóta. Við höldum mikið upp á litla, hversdagslega hluti eins og að kveikja upp í arninum og fá okkur kakó eða að baka eina sort af smákökum. Á þessum tíma er mikið annríki en maður þarf að passa sig á að fríka ekki út heldur finna jafnvægið.“

Bókin er til sölu í verslunum Eymundsson um allt lant, á keramikverkstæði Margrétar í Gránufélagsgötu 48 á Akureyri og á heimsíðu Gunnars og Höllu https://homeanddelicious.is/