Fara í efni
Mannlíf

Rekin út af kaffihúsi því fatlaðir voru með í för

Áslaug Kristjánsdóttir sem lét nýverið af störfum hjá Akureyrarbæ vegna aldurs. Ljósmynd af vef Akur…
Áslaug Kristjánsdóttir sem lét nýverið af störfum hjá Akureyrarbæ vegna aldurs. Ljósmynd af vef Akureyrarbæjar.

Áslaug Kristjánsdóttir lét nýverið af störfum hjá Akureyrarbæ vegna aldurs en hún hefur síðastliðin 40 ár unnið með fötluðu fólki, nú síðast í þjónustukjörnum fyrir fólk með geðraskanir. Áslaug segist, í viðtali á vef Akureyrarbæjar, varla hafa misst dag úr vinnu í gegnum tíðina og að lykilatriði sé að hafa gleðina í fyrirrúmi og vera heiðarlegur við sjálfan sig og aðra.

Áslaug hóf störf hjá Sólborg, vistheimili fyrir fatlaða, í kringum 1980. „Tvær vinkonur mínar sem unnu þar sögðu mér að það vantaði starfsfólk og vildu fá mig. Ég sneri við og fór heim fyrsta daginn, mér leist ekkert á þetta. En þær létu hvorki laust né fast fyrr en ég kom aftur og á endanum lét ég undan og byrjaði að vinna þarna,“ segir Áslaug.

Fatlaðir reknir út af kaffihúsi

Hún segir að á þessum tíma hafi verið miklir fordómar í samfélaginu gagnvart fötluðum. „Ég man til dæmis einu sinni eftir því að hafa verið rekin út af kaffihúsi hér í bænum vegna þess að ég var með fatlað fólk með mér. Við vorum nokkrar sem börðumst mikið fyrir því að fatlað fólk mætti taka þátt í samfélaginu eins og aðrir og telja sumir að við höfum rutt brautina, kölluðu okkur „eldhuga“, en þetta atvik á kaffihúsinu varð þess valdandi að við gerðum enn frekar í því að ögra samfélaginu. Það hafa orðið mjög miklar breytingar síðan þá,“ segir Áslaug.

Árið 1997 hóf Áslaug störf hjá Akureyrarbæ, fyrst í Hæfingarstöðinni og síðan í búsetuþjónustu fyrir geðfatlaða. Undanfarin ár hefur hún verið í hlutastarfi hjá bænum meðfram vinnu á starfsbraut í Verkmenntaskólanum á Akureyri. „Ég á sjálf bróður sem er með geðsjúkdóm og það gæti verið ein af ástæðunum fyrir því að ég hef fundið mig í þessu. Það hefur alltaf verið ofboðslega gaman að vinna með fólki með geðraskanir – þetta eru englar alheimsins! Auðvitað er þetta veikt fólk en þetta er gott fólk og fyrir mér var þetta alltaf gaman. Ég hef mikinn áhuga á fólki og hegðun fólks. En aðalatriðið er að vera glaður í vinnunni og að vera heiðarlegur gagnvart samstarfsfélögum og sjálfum sér,“ segir Áslaug.

Viðtalið í heild