Fara í efni
Mannlíf

Að lifa og njóta á Costa Blanca

Sveppagatan í Alicante borg er skemmtileg heim að sækja fyrir barnafjölskyldur.

Fjölmiðlakonan og Akureyringurinn Snæfríður Ingadóttir er um þessar mundir að senda frá sér nýja ferðahandbók. Að þessu sinni tekur hún fyrir Costa Blanca svæðið á meginlandi Spánar en áður hefur hún sent frá sér sambærilegar ferðahandbækur um Tenerife og Gran Canaria.

„Það er alveg ástæða fyrir því að Costa Blanca svæðið er svona vinsælt hjá okkur Íslendingum. Þetta er fjölbreytt svæði, bæði hvað varðar landslag og afþreyingu. Þá eru sólardagar þarna meira en 300 talsins á ári,“ segir Snæfríður við Akureyri.net.

„Þessi bók er í sama anda og fyrri ferðahandbækurnar mínar en með þessari bók þá hef ég tekið fyrir þrjá vinsælustu sólaráfangastaði okkar Íslendinga. Bókin er hugsuð sem innblástur fyrir ferðafólk sem er á leið til Costa Blanca og langar til að gera eitthvað meira en bara að liggja í sólbaði.“

Niceair hefur beint flug til Alicante í apríl og gæti ný ferðahandbók Snæfríðar nýst vel fyrir ferðalanga sem ætla þangað í vor. Þessi mynd er frá bleiku saltvötnunum í Torrevieja eru sannarlega falleg.

Snæfríður hefur margoft heimsótt Costa Blanca svæðið en hún hefur t.d. farið þangað nokkrum sinnum í göngur með vinkonum sínum og svo þræddi fjölskyldan alla skemmtigarða á svæðinu eitt sumarið við gerð bókarinnar, sem eru ófáir. „Afþreying fyrir fjölskyldufólk er ótrúlega mikil, sérstaklega í kringum Benidorm, þar er hver skemmtigarðurinn á fætur öðrum, og þetta eru virkilega flottir garðar.“

Snæfríður og fjölskylda í skemmtigarðinum Terra Mitica við Benidorm.

Spurð að því hvað standi upp úr á þessu svæði að hennar mati þá nefnir hún að hún sé alltaf svolítið skotin í Altea bænum. Þá segir hún að það séu margir skemmtilegir útimarkaðir á Costa Blanca og það sé alltaf ákveðin upplifun að heimsækja þá. „Annars er af nógu af taka. Ég hef sjálf gaman af göngum og það er stutt í margar mjög fallegar gönguleiðir, sérstaklega á norðurhluta svæðisins. Þá er ótrúlega margt að skoða á þessu svæði, mér fannst t.d. mikil upplifun að heimsækja Cuevas del Canelobre hellana og þá eru veggmyndirnar í Orihuela til heiðurs Miguel Hernández og baráttu hans fyrir tjáningarfrelsinu mjög áhrifaríkar. Matarmenningin er líka mjög skemmtileg á þessu svæði. Paellan, sem er einn af þjóðarréttum Spánar kemur upphaflega frá Valencia héraði, enda mikil hrísgrjónarækt þar. Svo er bara svo áreynslulaust að njóta lífsins þarna, yfir góðum mat í sólskini.“

Notaðir senjorítukjólar eru meðal þess sem finna má á útimörkuðum í kringum Torrevieja.

Forsala á bókinni Costa Blanca Lifa og njóta er hafin á heimasíðu Snæfríðar, lifiderferdalag.is og bíður höfundur forsölutilboð til fyrstu kaupenda fram til 13. desember. Sjá hér: https://www.lifiderferdalag.is/product-page/costa-blanca-lifa-og-nj%C3%B3ta

Bókin fer annars í almenna sölu í janúar og verður þá væntanlega fáanleg í bókabúðum.

Snæfríður gefur hugmyndir að nokkrum skemmtilegum gönguleiðum í bókinni, m.a. í kringum Guadalest uppistöðulónið.

Það er skemmtilegur risaeðlugarður á Costa Blanca svæðinu, segir Snæfríður.