Fara í efni
Mannlíf

Á rölti með Jóni Gnarr og Klaka í Kjarnaskógi

Jón Gnarr í einum af sínum ótal göngutúrum um Akureyri og nærsveitir. Myndir með viðtali: Rakel Hinriksdóttir

„Skáldskapur er ákveðinn lykill að því að ná lífshamingju á Íslandi,“ segir Jón Gnarr, leikari og rithöfundur. Hann arkar stórstígur um Kjarnaskóg með hundinn sinn, talar af ástríðu um íslenska tungu og það hvernig við höfum þurft á því að halda að nýta okkur tungumálið til þess að stytta okkur stundir, og ekki síður til þess að geta speglað okkur sjálf í samfélaginu sem við lifum í. Hann er staddur á Akureyri til þess að leika í verkinu ‘And Björk of course’ eftir Þorvald Þorsteinsson, sem er í sjálfu sér mikil ádeila á nútíma samfélag mannanna. Blaðamaður Akureyri.net fær að fljóta með í einum af ótal göngutúrum leikarans, þar sem hann blandar saman heilsubót, hundaviðrun og dægrastyttingu.

Ýmsir sunnlenskir leikarar og listamenn af öðru tagi hafa villst norður yfir heiðar í gegnum tíðina til þess að vinna tímabundið að menningarverkefnum. Þetta fólk setur mismikinn svip á bæjarlífið á meðan dvölinni stendur. Jón Gnarr er einn af þeim sem við tökum eftir. Hann stundar mikla útivist og ásamt hundinum sínum Klaka, sem er mikill karakter eins og eigandinn. Þeir fara í tvo langa göngutúra á hverjum degi. „Ég er allt í einu orðinn þessi kall sem vaknar snemma á morgnana og fer í göngutúr. Mig hefur alltaf langað að vera þessi kall en hafði enga trú á að ég gæti það.“

Hann svaraði mér ekkert. Sem er svosem ekkert óvenjulegt fyrir Akureyring, en kannski var hann bara álfur.

Kjarnaskógur skartar sínu fegursta á köldum en björtum vetrardegi. Við göngum framhjá stígnum upp að Álfasteininum, sem einnig liggur upp í Gamla. Jón segist hafa farið áður að skoða steininn. „Ég sá enga álfa,“ segir hann. „Það var reyndar þarna gamall maður og ég fór að vara hann við, að passa sig í hálkunni. Hann svaraði mér ekkert. Sem er svosem ekkert óvenjulegt fyrir Akureyring, en kannski var hann bara álfur.“

Klaki, hundurinn hans Jóns, er svissneskur Sheffer.

„Ísland er á skáldskap byggt,“ segir Jón. „Ef þú spáir í því, þá er ekki til neitt íslenskt orð yfir ‘history’, við notum bara orðið ‘saga’ yfir allt. Burtséð frá því hvort sannleikskorn sé í sögunni eða ekki. Þess vegna er ég svona áhugasamur um söguarfinn okkar, mín skoðun er sú að þegar þú skilur samhengi hlutanna, þá skilur þú núið miklu betur. Þú skilur annað fólk betur ef þú þekkir sögu þess.“

Þetta eru eiginlega óttalegir plebbar. Þau eru svona að róta í sjálfum sér og það er ekki mikið sem kemur upp úr krafsinu.

Klaki er ánægður með að losna við tauminn annað slagið og gleðst mikið yfir því að eltast við skíðagöngufólk, allt í mestu friðsemd. Jón fer að segja frá leikritinu. „Sko, verkið segir frá sjö manneskjum sem eru á nokkurs konar sjálfshjálparnámskeiði. Námskeiðið er byggt á hugmyndafræði einhvers Ameríkana,“ segir hann. „Fólkið er að leita að einhverri hamingju, fullnægju í lífinu. Eftir því sem líður á verkið fá áhorfendur að kynnast þessum persónum betur og betur. Þá áttar þú þig eiginlega á því að þau eru eiginlega óttalegir plebbar. Þau eru svona að róta í sjálfum sér og það er ekki mikið sem kemur upp úr krafsinu.“

Klaki skemmtir sér við að hlaupa með skíðagöngugarpi. Gleðin var gagnkvæm, svo það komi fram.

„Á ákveðinn hátt er leikritið háðsádeila á íslenska þjóðarsál og sérstaklega þetta fyrirbæri sem er kallað ‘borealism’,“ segir Jón. „Það er þegar fólk á Norðurhveli reynir að samræmast stereótýpískum hugmyndum annarra þjóða um það hvernig við erum. Það eru helst þessar hugmyndir um að við séum ennþá hálfgerðir víkingar, hörð af okkur og órjúfanlegur hluti af náttúruöflunum.“ Persóna Jóns í leikverkinu er ein sú erfiðasta sem hann hefur tekist á við. „Hann er menntamaður en líka kynferðispervert. Það er brekka.“

„Verkið er áleitið, en það er skrifað af mikilli hlýju og miklum húmor,“ segir Jón. „Þorvaldur Þorsteinsson, höfundur leikverksins, fór ekkert leynt með það sjálfur að vera í sjálfskrísu, og það kæmi mér ekkert á óvart ef hann hefði sjálfur einhverntíman farið á svipað námskeið. Ef maður upplifir að hann sé að gera grín að sjálfsvinnu í verkinu, er hann í raun að gera grín að sjálfum sér, sem er algjör forsenda þess að maður geti grínast með svona.“

Ég kem úr svolítið krambúleraðri fjölskyldu og hef vissulega farið á einhver svona námskeið, tekið af skarið í einhverri tólf spora vinnu og hellt mér út í trúmál.

„Persónulega, finnst mér sjálfsvinna vera mikilvæg,“ segir Jón og sest á bekk við göngustíginn. Þar sitjum við í þögn í dulitla stund áður en hann heldur áfram. Klaki borðar snjó og leggst niður. „Ég kem úr svolítið krambúleraðri fjölskyldu og hef vissulega farið á einhver svona námskeið, tekið af skarið í einhverri tólf spora vinnu og hellt mér út í trúmál, svo eitthvað sé nefnt. Það er reyndar ekki óalgengt hjá listamönnum, að vera svona leitandi.“ Jón segist líta á sjálfan sig hugmyndafræðilega sem túrista. „Mér finnst gaman að skoða og sökkva mér ofan í alls konar, en það þýðir ekki að ég ætli að dvelja við það að eilífu.“

Hvernig eru Íslendingar?

„Við erum upp til hópa gott fólk,“ segir Jón hugsi. „Við erum að mestu leyti réttsýn, við höfum meðlíðan með öðru fólki og jafnvel líka fólki í öðrum löndum. Við höfum æft þessa heilastöð sem örvast af skáldskap þannig að við erum líkleg til þess að geta tileinkað okkur nýjungar, eins og til dæmis að kjósa Vigdísi Finnbogadóttur til forseta. Það var fullt af frambærilegum körlum þarna líka.“ Þrátt fyrir alla þessa góðu kosti, telur Jón að það sé eitt framar öðru sem háir okkur. „Við höfum ekki þessi mörk sem sumar þjóðir hafa náð að tileinka sér. Við þjáumst af markaleysi gagnvart okkur sjálfum og öðrum. Við gerum of mikið. Vinnum of mikið.“

Klaki er blíður persónuleiki, segir Jón. Hann segir að hundar séu kærleiksverur.

Bæjarstjóri á Akureyri, forseti eða eitthvað allt annað?

Jón er fyrrverandi borgarstjóri í Reykjavík. „Fólk hefur verið að segja við mig að ég ætti að bjóða mig fram sem bæjarstjóra á Akureyri,“ segir Jón hlæjandi. „Ég held að fólk myndi sjá eftir því, það fyrsta sem ég myndi gera væri að takmarka bílaumferð og hækka stöðumælagjöld.“ Hann er reyndar alveg á því að Akureyri ætti að vera borg, sem myndi eflaust falla í kramið hjá mörgum íbúum. Uppbygging flugvallarins og heilbrigðiskerfisins hérna færi ofarlega á verkefnalistann, en Jón tekur fram að hann hrífist mikið af mörgum ákvörðunum í skipulagsmálum og telur að höfuðborgarsvæðið mætti bæta sig að mörgu leyti. Sérstaklega dáist hann að vilja okkar fyrir norðan til þess að varðveita sögulega staði og heiðra þannig bæinn og sögu hans.

Sko. Ég held ég yrði fínn forseti.

Talandi um stór og ábyrgðarmikil störf, er ekki úr vegi að rabba um forsetaembættið. Jón leyfir Klaka að hvíla sig inni í bíl áður en það umræðuefni er tæklað. „Sko. Ég held ég yrði fínn forseti,“ segir Jón. „Á hverjum degi fæ ég tölvupóst eða skilaboð eða tögg á samfélagsmiðlum varðandi þetta. Ég hafði aldrei pælt í því að vera forseti, en árið 2016, þegar Guðni var kosinn fyrst var fólk að stinga upp á mér og ég tók þetta alvarlega. Ræddi það við konuna mína. Þá komst ég að þeirri niðurstöðu að mig langaði ekki að fara í framboð. Núna kemur þetta aftur upp og ég get sagt að ég er að hugsa þetta af alvöru.“ Jón tekur fram að hann sé með hausinn alveg á kafi í leikverkinu hérna fyrir norðan og vilji klára frumsýningu, sem verður 23. febrúar áður en hann tekur endanlega ákvörðun.

„Það, að hinir og þessir á samfélagsmiðlum, sem fylgja mér, telji að ég eigi að vera forseti, þá er ég ekkert viss um að það sé almennt það sem fólk í landinu er að pæla,“ segir Jón að lokum. „Ég tek því bara sem hæfilegri vísbendingu.“

„Tilgangur Klaka í lífinu er vinátta okkar, og að fara með mig út að labba svo ég haldi heilsu,“ segir Jón.