Fara í efni
Mannlíf

75 Þórstreyjur vöktu mikla lukku í Ghana!

Einar Stefán Björnsson í hópi fótboltastrákanna sem hann færði Þórstreyjur að gjöf.

Ungir fótboltastrákar í Borginni Ho í Ghana klæðast nú margir treyjum merktum íþróttafélaginu Þór á Akureyri. Treyjurnar fengu þeir að gjöf á dögunum og vöktu þær mikla lukku

Það var Einar Stefán Björnsson, yfirlæknir á Landspítalanum, sem færði strákunum treyjurnar en hann er á ferð í Ghana ásamt nokkrum vinnufélögum.

Einar Stefán lék bæði handbolta og fótbolta með Þór fyrir margt löngu og er dyggur stuðningsmaður félagsins. Í aðdraganda ferðarinnar til Ghana datt honum í hug hvort ekki væri hægt að útvega nokkrar treyjur í því skyni að gleðja innfædda og söfnunin gekk vonum framar.

„Við erum hér í boði vina okkar Ruth Adjaho Samúelsson og fjölskyldu, nokkrir vinnufélagar hennar af Landspítalanum. Ruth er ættuð frá Ghana,“ sagði Einar Stefán við Akureyri.net. „Hér eru læknir, hjúkrunarfræðingur, læknaritari og tveir lyfjafræðingar ásamt mökum.“

Einar heldur áfram: „Við erum í höfuðborginni Accra en fórum til borgarinnar Ho, heimsóttum kennslusjúkrahúsið þar og kynntum þar sérgreinar okkar innan læknisfræði, hjúkrunarfræði og lyfjafræði. Við fengum síðan kynningu frá þeim. Við höfðum ákveðið að gefa fótboltaliði í Ho Þórstreyjurnar og þeim var sannarlega tekið með miklu þakklæti og innilegri gleði. Það var ógleymanlegt að hitta drengina,“ sagði Einar.