Fara í efni
Mannlíf

30.000 fóru í prufu, Kristrún fékk hæstu einkunn!

Kristrún Jóhannesdóttir er flogin vestur um haf til náms. Ljósmynd: Skapti Hallgrímsson.

Kristrún Jóhannesdóttir, 23 ára Akureyringur, hélt í vikunni á vit ævintýranna og hóf staðarnám í söngleikjalist í AMDA – The American Musical and Dramatic Academy – í New York. Þar með rætist gamall draumur því Kristrún hefur frá barnsaldri verið staðráðin í að feta þessa braut. 

„Ég fór í prufu í júlí í fyrra og fékk að vita í október að ég hefði komist inn í skólann, en er loksins að fara út núna – ári seinna,“ segir Kristrún við Akureyri.net. Hún hóf reyndar nám við AMDA á síðasta ári, en hefur eingöngu sótt tíma í gegnum Zoom. „Það var gott, en ég er orðin mjög spennt að hitta kennarana mína.“

Fjölbreytt nám

„Skólinn sendi mér á sínum tíma póst þar sem kom fram að ég hefði fengið hæstu einkunn  í prufunum, en um 30.000 manns mættu í þær í gegnum netið! Mér var tilkynnt að ég fengi hæsta mögulega skólastyrk, ásamt fleirum, og að skólinn myndi aðstoða mig við að sækja um fleiri styrki.“

Kristrún var að vonum himinlifandi, og er enn; réði sér vart fyrir spenningi í samtali við blaðamann, áður en hún hélt í víking vestur um haf.

Hún lærði bæði djass- og dægurlagasöng í Tónlistarskólanum á Akureyri. „Ég hef líka verið í ballett, leikhúsdansi, djassdandi og steppdansi, sem er í uppáhaldi núna. Ég verð áfram í þessum fögum úti, og í söng og leiklist.“

Námið kallast Musical theater tecnique og snýst í raun um að læra að taka þátt í söngleikjum, eins og Kristrún orðar það. Hún verður í tvö ár í AMDA í New York og síðan tvö ár í sama skóla í Los Angeles; lýkur þar BFA námi, Bachelor of Fine Arts.

Æfði sig fyrir framan spegil

Kristrún steig á svið með Leikfélagi Menntaskólans á Akureyri árin fjögur sem hún var þar í námi, og þannig vildi til að söngleikur var settur á svið í öll skiptin.

„Þetta er gamall draumur. Ég hef alltaf verið með plakat af New York í herberginu mínu; mér finnst ekkert jafnast á við söngleiki og vil helst vera á Broadway! Ég æfði mig fyrir framan spegil, bæði að tala og syngja með amerískum hreim,“ segir Kristrún þegar blaðamaður hefur orð á áberandi framburði hennar.

Hún segist hafa starfað sem þjónn á Tapas barnum í Reykjavík um tíma, ekki síst til að æfa sig í þessum efnum og vildi helst þjóna Bandaríkjamönnum sem komu á staðinn. „Þegar gestirnir voru farnir að spyrja mig hvort ég væri frá Bandaríkjunum vissi ég að þetta væri orðið í lagi hjá mér!“

Að farast úr spenningi!

„Ég hefur verið að farast úr spenningi síðustu daga. Það er gaman að upplifa að draumar rætist,“ segir Kristrún. „Mér finnst framtíðin rosalega björt; kærastinn minn er farinn út í nám, við erum komin með íbúð rétt við Central Park og í skólanum fær maður ókeypis miða á Broadway þegar er laust.“ Hún stefnir að því að sjá uppáhaldssöngleikinn sinn – Hadestown – sem fyrst. „Ég hef aldrei séð söngleik á Broadway og tilhlökkunin er ólýsanleg.“

Kristrún veit hvert hún stefnir, en er jarðbundin.

„Það er svo margt sem mig langar að gera. Nú ætla ég að einbeita mér að því að hugsa um námið, en einn daginn langar mig að vera á Broadway; ég væri til dæmis alveg til í að að taka þátt í Hadestown! Aðaldraumurinn er að geta borgað leiguna með því að vinna við það sem ég elska svona mikið.“