Fara í efni
Íþróttir

Vonast til að vinna titilinn með dótturinni

Jónína Guðbjartsdóttir með Íslandsbikarinn í kvöld. Ljósmynd: Skapti Hallgrímsson

Jónína Guðbjartsdóttir, aðstoðarfyrirliði Skautafélags Akureyrar, hefur marga fjöruna sopið á svellinu, hefur verið lykilleikmaður í hokkíliði SA í fjölmörg ár enda fædd 1981 og enn að spila hokkí, nýorðin 42ja ára gömul. Af 22 Íslandsmeistaratitlum sem SA hefur unnið í kvennaflokki á Jónína hlut í 21 titli, og reyndar má segja að hún eigi hlut í þeim öllum.

Jónína var ánægð með leikinn í kvöld og hvernig SA-liðið mætti mun ákveðnara til leiks en í fyrsta leiknum hérna fyrir norðan. „Þetta var fjörugur leikur og byrjaði rosa vel hjá báðum liðum,“ sagði Jónína. „Fjölnisstelpurnar eru stórhættulegar enda sést hvernig þær enduðu leikinn, þær geta alltaf svarað fyrir sig. Við vorum svolítið lengi í gang, en svo greinilega vorum við ákveðnari og vildum sigurinn, vildum klára þetta í þremur leikjum.“ Vissulega hafi Fjölnisstelpurnar viljað fá fleiri leiki og auðvitað viljað vinna titilinn, „en við erum ekki tilbúnar að sleppa honum.“

Gott að klára þetta bara á heimavelli?

„Já, það er miklu skemmtilegra að spila fyrir svona stúku eins og er hér heldur en að taka hann í Reykjavík,“ sagði Jónína og alveg skiljanlegt því stemningin var góð eins og alltaf í Skautahöllinni á Akureyri og stelpurnar hvattar vel áfram af sínu fólki.

En var sigurinn jafn öruggur og tölurnar gefa til kynna, komnar í 5-0 og enda í 5-1?

„Já, mér fannst það. Við vorum ákveðnar núna, ekki eins og í fyrsta leik þar sem við vorum ekki alveg mættar enda sást það í úrslitum í þeim leik sem fór í vítakeppni og eitt mark, en þarna vorum við miklu meira tilbúnar og við vildum alveg frá byrjun vinna þennan bikar.“

Jónína þakkar áhorfendum fyrir góðan stuðning að leikslokum í kvöld.

21. Íslandsmeistaratitillinn!

Þetta er alls ekki fyrsti Íslandsmeistaratitill Jónínu. Hún hefur barist um titilinn 24 sinnum og unnið hann í öll skiptin nema þrjú. Þetta var 21. Íslandsmeistaratitil hennar, en 22. skipti sem SA vinnur titilinn.

„Þetta var 21. skiptið hjá mér. Við vorum með tvö lið eitt árið og Ynjurnar unnu þá þannig að ég er bara með 21,“ sagði Jónína. „En ég hef spilað um titilinn 24 sinnum og Björninn, sem nú heitir Fjölnir, þær unnu tvisvar og svo Ynjurnar einu sinni, en SA hefur unnið hann 22svar af 24 skiptum.“

Og þú ert ekkert hætt að reyna að vinna hann, er það?

„Nei, helst ekki. Ég hlakka bara til að fara aftur í þessa baráttu á næsta ári.“ Jónína hefur líka skemmtilegt takmark að stefna að því nú styttist í að hún gæti spilað í meistaraflokki með dóttur sinni. „Já, ég á eina sem er 14 ára á þessu ári og ég er að vonast til að hún komist í meistaraflokk áður en ég hætti og ég fái að spila með henni.“

Hættirðu þegar þið vinnið titilinn saman?

„Já, ætli það ekki!“

Jónína (21) fyrir fram mark SA í leiknum í kvöld.