Fara í efni
Íþróttir

Vilja hjálpa Baldvin að láta drauminn rætast

Hlauparinn Baldvin Þór Magnússon, sem kjörinn var íþróttakarl Akureyrar 2023, og Höldur - Bílaleiga Akureyrar hafa gert styrktarsamning sín á milli. Frá þessu er sagt á Facebook-síðu fyrirtækisins.
 
Þar segir einnig: 
 
„Baldvin er einn allra sterkasti millivegalengda- og langhlaupari sem Ísland hefur átt. Hann hefur náð framúrskarandi árangri á undanförnum árum í hlaupum frá 1.500 metra og upp í 10 kílómetra hlaup. Hann á sem stendur fjórtán virk Íslandsmet, sex í yngri aldursflokkum og átta í flokki fullorðinna. Baldvin setti fimm Íslandsmet á síðasta ári og hefur þegar sett eitt Íslandsmet á þessu ári þegar hann bætti 44 ára gamalt Íslandsmet í 1.500 metra hlaupi innanhúss.
 
Baldvin Þór var nýverið útnefndur Íþróttakarl Akureyrar en hann er fæddur á Akureyri og bjó þar fyrstu árin en flutti þá til Bretlands með foreldrum sínum. Hann fór á íþróttastyrk til Bandaríkjanna í háskólanám og æfði þar og keppti í fimm ár. Hann hefur nú snúið aftur til Bretlands og æfir þar með sterkum hópi hlaupara. Baldvin Þór stefnir ótrauður á að komast á Ólympíuleikana í París í sumar í 5.000 metra hlaupi og það er Höldi - Bílaleigu Akureyrar sannur heiður að hjálpa Baldvin Þór að láta þann draum rætast.“