Fara í efni
Íþróttir

Vildi meira en má ekki gleyma að fagna

Tryggvi Snær eftir sigurleikinn um bronsverðlaun í gær. Ljósmynd: Basketball Champions League.

Tryggvi Snær Hlinason vann til silfurverðlauna í Meistaradeild Evrópu í körfubolta í gær ásamt liðsfélögum sínum í spænska félaginu Zaragoza, eins og Akureyri.net greindi frá. Hann er ánægður með verðlaunin, en stefndi þó hærra.

„Það var náttúrlega leiðinlegt að komast ekki í úrslitin en þetta gerist. Sem betur fer gátum við klárað þetta vel og náð í þriðja sæti. Það er alltaf gaman að vinna eitthvað, ég persónulega vildi samt ná hærra – en má ekki gleyma að fagna,“ sagði Tryggvi Snær Hlinason við Akureyri.net.

Í janúar voru sjö ár síðan Tryggvi mætti á fyrstu körfuboltaæfinguna hjá Þór! Hann segist aðspurður stundum hugsa um það hve mikið hafi gerst á stuttum tíma. „Ferillinn er stuttur en sá tími er allur minn ferill! Ég horfi bara þannig á málin og hugsa aðallega um framtíðina; ég er spenntur fyrir því hvað kemur næst.“

Hvað með framhaldið; verður Tryggvi áfram hjá Zaragoza eða hvert leitar hugurinn?

„Það er ekkert komið á hreint hvað verður. Ég klára árið hérna og skoða svo stöðuna. Draumurinn, fyrir utan að bæta mig, er að komast í EuroLeague,“ segir hann. Það er sterkasta Evrópukeppnin, þar sem risarnir í evrópskum körfubolta eiga sæti. Spurður um hvort hann stefni enn að því að leika í Bandaríkjunum síðar meir, svarar Tryggvi einfaldlega: „Það gerist bara ef það gerist.“

Tryggvi spilar mikið í sumum leikjum Zaragoza en lítið í öðrum. Hverng skyldi hann kunna við hlutverk sitt í liðinu?

„Þetta er hefur verið frekar ruglað ár; við erum búnir að hafa þrjá þjálfara, mikil hreyfing verið á leikmönnum og þar með ekki mikil festa í hlutverkum. En í atvinnumennsku þarf maður alltaf að berjast fyrir sínu hlutverki, það er misjafnt eftir mótherjum hverjir spila og alls kyns hlutir sem spila inní. En ég stefni að sjálfsögðu alltaf að því að fá stærra hlutverk og spila meira.“