Fara í efni
Íþróttir

Víkingur skoraði í lokin og KA tapaði

Litlir kærleikar voru með leikmönnum Víkings og KA í leikslok viðureignar félaganna á KA-vellinum í fyrra og stemningin var ekki ósvipuð á Víkingsvellinum í dag. Ljósmynd: Skapti Hallgrímsson

KA-menn urðu að sætta sig við 1:0 tap gegn Víkingum í Reykjavík í dag í Bestu deildinni í knattspyrnu. Sigurmarkið á Víkingsvellinum kom ekki fyrr en undir lokin eftir að KA hafði varist mjög vel allan tímann svo leikmenn liðsins og aðstandendur voru eðlilega afar svekktir með útkomuna.

Það var Færeyingurinn Gunnar Vatnahamar sem skoraði þegar leikklukkan sýndi 87. mínútu. Þess ber þó að geta að leikið var í sjö mínútur umfram hinar hefðbundnu 90 vegna tafa í seinni hálfleik. 

KA-menn voru ósáttir við frammistöðu Vilhjálms Alvars Þórarinssonar dómara á lokakaflanum og leyndu þeirri skoðun ekki. Á endanum fékk dómarinn nóg og sýndi Sævari Péturssyni, framkvæmdastjóra KA sem var liðsstjóri, rauða spjaldið. Rak hann af svæðinu.

Eftir sigurinn eru Víkingar enn með fullt hús stiga, 12 stig eftir fjóra leiki, og hafa enn ekki fengið á sig mark í deildinni. KA hefur fimm stig eftir fjóra leiki.

KA-menn mættu óhræddir til leiks, vörðust framarlega á vellinum og gerðu toppliðinu mjög erfitt fyrir fyrsta hálftímann en lítið var um hættu upp við mörkin þá og raunar allan leikinn. Bæði lið eru þekkt fyrir góðan varnarleik og brugðust unnendum þeirrar hliðar knattspyrnunnar ekki. Gáfu fá færi á sér enda var leikurinn lengi vel eins og spennandi skák þjálfaranna.

Víkingar hresstust þegar um það bil hálftími var liðinn af leiknum og þá komust þeir næst því að skora; Birnir Snær Ingason þrumaði að marki utan teigs, boltinn fór í þverslána og aftur fyrir.

KA-menn fengu tvö færi þegar kortér var liðið af seinni hálfleik: Ingvar Jónsson markvörður Víkings varði þá mjög vel frá Bjarna Aðalsteinssyni, boltinn hrökk til Ásgeirs Sigurgeirssonar en Ingvar varði einnig frá honum.

Víkingar voru meira með boltann í seinni hálfleik en vörn KA gaf nær engin færi á sér; Víkingar sköpuðu enga hættu við KA-markið svo heitið geti fyrr en þeir skoruðu undir lokin.

Varamaðurinn Karl Friðleifur Gunnarsson komst þá fram hægri kantinn, sendi vel fyrir markið og Færeyingurinn Gunnar Vatnhamar skoraði með föstum skalla í fjærhornið. Hann laumaði sér inn á teig án þess að nokkur yrði hans var og var algjörlega óáreittur þegar boltinn kom fyrir markið. Þarna gleymdi KA-vörnin sér eitt augnablik og það reyndist dýrkeypt. Liðið lék hins vegar vel á erfiðum útivelli, gerði toppliðinu mjög erfitt fyrir framan af og var aðeins hársbreidd frá því að fara með eitt stig norður. 

Smelltu hér til að sjá leikskýrsluna