Fara í efni
Íþróttir

„Við áttum geggjaða stúku í dag“

Gígja Guðnadóttir í auga bikarsins, brosandi eftir gott stig og stuðningsmenn Aftureldingar í baksýn. Ljósmynd: Þórir Tryggva

„Ég held að tilfinningin sé ekki komin. Ég er alveg orðlaus og held að ég muni ekki átta mig á þessu fyrr en í næstu viku,“ voru fyrstu viðbrögð Gígju Guðnadóttur fyrirliða eftir að hún hafði lyft Íslandsbikarnum og fagnað með liðinu sínu.

Gígja kom til baka í upphafi tímabilsins eftir að hafa slitið krossband, en þetta var að líkindum hennar síðasti leikur fyrir KA, í bili að minnsta kosti. Fleiri breytingar eru í farvatninu þó ekki sé neitt staðfest í þeim efnum og er til dæmis búist við að Jóna Margrét Arnarsdóttir gæti jafnvel haldið utan í atvinnumennsku. Það má því búast við að fylla þurfi stór skörð í þessu fjórfalda meistaraliði fyrir næsta tímabil. Gígja segir þó aðspurð að einhverjar breytingar á liðinu séu fram undan, en það þýði ekki að næsta tímabil verði erfitt.

Fyrirliðarnir Gígja Guðnadóttir og Jóna Margrét Arnarsdóttir hefja bikarana á loft og liðsfélagarnir brosa út að eyrum. Mögulega síðasti leikur bæði Gígju og Jónu Margrétar fyrir KA, í bili að minnsta kosti. Ljósmynd: Þórir Tryggva.

Gestirnir unnu fyrstu hrinuna með átta stiga mun og höfðu náð fimm stiga forskoti í annarri hrinu þegar KA-stelpurnar fóru loks almennilega í gang. Gígja tekur ekki endilega undir að þar hafi verið um stress í liðinu að ræða heldur hafi tekið tíma að melta það sem var í gangi. „Ég held að við höfum verið að melta þetta allt saman. Það var rosa margt í gangi, margar kannski að spila sinn síðasta leik fyrir KA í einhvern tíma og fullt hús af fólki – sumar kannski að spila fyrsta stóra leikinn þannig að ég held að við höfum bara verið að taka allt inn og svo fórum við bara á fullu gasi. Við erum ekki hættar, en ætlum að flytja okkur eitthvert annað, sumar. Þannig að þetta var stórt og rosa stór sigur fyrir okkur að landa þessu,“ sagði Gígja eftir að hún hafði lyft Íslandsbikarnum.

Hvað fannst þér hafa skilað þessum sigri í dag?

„Það var ákveðnin. Ég held að dagsformið skipti máli, við áttum geggjaða stúku í dag og það hjálpaði okkur helling. Við vorum fókuseraðar á markmiðið allan tímann, við misstum ekki haus þó svo við værum undir og töpuðum fyrstu hrinu. Þannig að ég held að einbeiting og þol hafi skipt máli í dag.“

Hversu miklu máli skiptir, þó það sé ekki troðfullt hús, að hafa þennan mikla stuðning og þessa stemningu?

„Það skiptir öllu máli. Maður fær enga smá orku frá stuðningsmönnunum og þegar þetta eru svona langir leikir, við höfum farið í þrjá fimm hrinu leiki á mjög stuttum tíma. Þá bara skiptir öllu máli að fá orkuna frá þeim og maður tekur hana beint inn. Þetta skiptir öllu máli.“

Það er bara bling, bling og bikarar hjá kvennaliði KA í blaki. Ljósmynd: Þórir Tryggva.