Fara í efni
Íþróttir

Verða stelpurnar deildarmeistarar?

Rut Jónsdóttir skorar í sigurleik KA/Þórs á Fram í KA-heimilinu í vetur. Ljósmynd: Þórir Tryggvason.

Stelpurnar í handboltaliði KA/Þórs geta tryggt sér deildarmeistaratitilinn í dag, þegar síðasta umferð Olísdeildarinnar fer fram. Þær mæta liði Fram í Reykjavík, liðin eru jöfn í efsta sætinu og því um hreinan úrslitaleik að ræða. KA/Þór dugar að vísu jafntefli þar sem Akureyrarliðið vann fyrri viðureign liðanna í vetur, en víst er að það verður ekki ofarlega í huga leikmanna enda ógerningur að spila upp á jafntefli í þessari hröðu og skemmtilegu íþrótt. Alvöru handboltalið fara í alla leiki til að vinna.

Þetta er þriðja viðureign liðanna í vetur:

  • KA/Þór vann Fram í haust, 30:23, í leik um titilinn Meistari meistaranna. Leikið var í Fram-heimilinu.
  • KA/Þór vann fyrri leik liðanna í Olísdeildinni, 27:23, í KA-heimilinu.

Lið KA/Þórs hefur leikið afar vel í vetur og aðeins tapað einum leik af þrettán, fyrir Stjörnunni í KA-heimilinu í 2. umferð deilarinnar í haust. Titillinn Meistari meistaranna var sá fyrsti í sögu liðsins þannig að annar gæti bæst við í dag.

Leikurinn hefst klukkan 13.30 og verður í beinni útsendingu á Stöð 2 Sport.

Tvö efstu lið deildarinnar, KA/Þór og Fram, sitja hjá í fyrstu umferð úrslitakeppninnar um Íslandsmeistaratitilinn. Ákveðið var á ársþingi HSÍ í haust að fjölga liðum í úrslitakeppninni úr fjórum í sex, þannig að hin fjögur bítast um að komast í undanúrslit, áður en þau tvö efstu hefja leik á ný.