Fara í efni
Íþróttir

Væri gott skref að gera betur en í fyrra

Leikmenn Þórs/KA fagna marka í Lengjubikarkeppninni í vetur. Sandra María Jessen, sem er komin aftur heim frá Þýskalandi, er lengst til vinstri. Ljósmynd: Skapti Hallgrímsson

Þór/KA hefur keppni í kvöld í efstu deild Íslandsmótsins í knattspyrnu, Bestu deildinni. Stelpurnar okkar fá ærin verkefni í tveimur fyrstu umferðunum; mæta liði Breiðabliks í Kópavogi í kvöld og fá síðan Íslandsmeistara Vals í heimsókn næst. Valur og Breiðablik hafa verið langbestu lið landsins síðustu ár.

Lið Þórs/KA er mjög breytt frá síðasta sumri.

Fyrirliðinn, Arna Sif Ásgrímsdóttir, er gengin til liðs við Val og á síðasta tímabili hurfu bæði María Catharina Ólafsdóttir Gros og Karen María Sigurgeirsdóttir á braut; María fór til Celtic í Skotlandi og Karen til Breiðabliks og verður því einn andstæðinganna í kvöld.

Fjórir erlendir leikmenn komu við sögu hjá Þór/KA í fyrra. Samningi var rift við tvo þeirra um mitt sumar, Miröndu Smith og Söndru Nabweteme, og ákveðið að semja ekki við áfram við hina tvo eftir tímabilið; Colleen Kennedy og Shaina Ashouri, sem báðar eru nú hjá FH.

Nokkrir leikmenn hafa gengið til liðs við Þór/KA í vetur:

  • Sandra María Jessen frá Bayer Leverkusen
  • Andrea Mist Pálsdóttir frá Växjö í Svíþjóð
  • Tiffany McCarty frá Breiðabliki
  • Vigdís Edda Friðriksdóttir frá Breiðaliki
  • Unnur Stefánsdóttir frá Grindavík
  • Arna Eiríksdóttir að láni frá Val
  • Brooke Lampe frá Bandaríkjunum - en snéri reyndar heim á dögunum af persónulegum ástæðum.

Góður undirbúningur

Jón Stefán Jónsson og Perry Mclachlan tóku við þjálfun liðsins eftir síðustu leiktíð. Perry hafði verið aðstoðarþjálfari í tvö ár en Jón Stefán þjálfaði síðast meistaralokk kvenna hjá Tindastóli áður en hann tók við starfi íþróttastjóra Þórs.

Jón Stefán segir ástandið á leikmannahópnum heilt yfir nokkuð gott. „Við höfum aðeins lent í meiðslum, auk þess sem flestar stelpurnar hafa bæði fengið Covid og flensuna og aðeins glímt við afleiðingar þess. En núna á síðustu metrunum held ég hreinlega að allar, sem á annað borð hefðu getað verið heilar í fyrsta leik, verði tilbúnar í slaginn,“ sagði Jónsi við Akureyri.net.

Hvernig hefur undirbúningurinn gengið?

„Undirbúningurinn hefur verið góður, við höfum spilað mikið af leikjum og komist að því að það sem helst háir okkur er stöðugleiki; við höfum átt frábæra leiki en töluvert slakari þess á milli. Þetta er hlutur sem ungur hópur þarf að læra að nálgast rétt. Við þurfum að læra að spila agað þegar við erum ekki að eiga frábæran fótboltaleik. Vonandi skilja allir hvað ég er að meina.“

Vissum hvað við vorum að fá

Hvernig hafa nýir og „nýir/gamlir“ leikmenn smollið inn í hópinn?

„Að sjálfsögðu mjög vel! Við vissum náttúrlega vel hvað við vorum að fá í hverjum einasta leikmanni. Mest hefur auðvitað verið rætt um Söndru Maríu og Andreu, enda eru þær báðar gríðarlega sterkir leikmenn og frábærir karakterar. Leikmenn eins og Tiffany, Unnur og Vigdís hins vegar eiga svo sannarlega eftir að setja mark sitt á sumarið.“

Hver er svo stefnan í sumar; hafið þið sett ykkur einhver sérstök markmið?

„Markmið allra íþróttamanna hlýtur alltaf að vera að vinna hvern einasta leik. Ef það tekst þá verður maður meistari – þykir mér ansi öruggt! En að öllu gamni slepptu þá held ég að hið gamla, góða, að taka eitt skref í einu og byrja á því að gera betur en í fyrra væri mjög góð byrjun. Það er búið að leggja það mikið í liðið að það hlýtur að vera krafan.“

Þið ráðist ekki á garðinn þar sem hann er lægstur í fyrsta leik. Við hverju býstu gegn Breiðabliki í Kópavogi?

„Fyrsti leikur er gegn liði sem spilaði síðasta alvöru keppnisleik gegn PSG á útivelli í riðlakeppni Meistaradeildarinnar ef ég man rétt. Þú getur því rétt ímyndað þér að við erum að fara að mæta sterkum andstæðingi. Við erum hins vegar hvergi bangin og förum í þennan leik með það að markmiði að vinna hann,“ sagði Jón Stefán Jónsson.

  • Leikurinn hefst klukkan 17.30 og verður sýndur beint á Stöð 2 Sport