Fara í efni
Íþróttir

Úrslitaleikur KA og Vals í Lengjubikarnum

Hallgrímur Mar Steingrímsson fagnar með tilþrifum eftir að hann kom KA í 1:0 gegn Val með marki úr vítaspyrnu þegar liðin mættust síðast; í lokaumferð Íslandsmótsins á síðasta ári. KA vann þá 2:0 og tryggði sér silfurverðlaunin. Dusan Brkovic til vinstri. Ljósmynd: Skapti Hallgrímsson

KA tekur á móti Val í úrslitaleik Lengjubikarkeppninnar í knattspyrnu í dag á heimavelli, nýja Greifavellinum við KA-heimilið. Flautað verður til leiks klukkan 16.00.

Valur vann Víking 1:0 í undanúrslitum og KA hafði betur gegn ÍBV í vítaspyrnukeppni eftir að markalaust var að loknum hinum hefðbundnu 90 mínútum. Þórsarinn Birkir Heimisson gerði sigurmark Vals gegn Víkingi.

KA vann fjóra leiki og tapaði einum í riðlakeppninni, Valur vann einnig fjóra en gerði eitt jafntefli.

Færeyski framherjinn Pætur Joensson Petersen hefur gert fjögur af 11 mörkum KA í keppninni til þessa og verður fróðlegt að sjá hvernig  honum og félögum hans gengur gegn öflugri vörn Vals; fregnir herma að nýr Valsþjálfari, Arnar Grétarsson sem KA-mönnum er að góðu kunnur, hafi lagt mikla áherslu á að efla varnarleik liðsins í vetur með góðum árangri.

KA-mönnum gekk vel gegn Völsurum í fyrrasumar; leikur liðanna í Bestu deildinni á Akureyri fór 1:1 og KA vann viðureign liðanna á Valsvellinum 2:0. Í lokahluta deildarinnar, framlengingu sex efstu liða, mættust liðin aftur á Akureyri og þá hafði KA aftur betur, 2:0. Hallgrímur Mar Steingrímsson gerði bæði mörkin.