Fara í efni
Íþróttir

Undirbúa alþjóðlegt siglingamót á Pollinum

Ragnar Rúnar Svavarsson, stjórnarmaður í Nökkva, og Tryggvi Heimisson, formaður klúbbsins skoða kepp…
Ragnar Rúnar Svavarsson, stjórnarmaður í Nökkva, og Tryggvi Heimisson, formaður klúbbsins skoða keppnisbátana sem komu til bæjarins í tveimur gámum. Ljósmynd: Skapti Hallgrímsson

Alþjóðlegt siglingamót, Rs Aero Arctic, hefst á Pollinum við Akureyri á mánudaginn og stendur til miðvikudags. Þetta er fyrsta alþjóðlega  mótið í kænusiglingum á Íslandi í aldarfjórðung, síðan Smáþjóðaleikarnir fóru fram í Reykjavík 1997, og það fyrsta á Akureyri.

Siglingaklúbburinn Nökkvi fékk senda 16 keppnisbáta erlendis frá, báta af nýjustu gerð, sem leigðir eru fyrir mótið og tveir slíkir að auki eru sendir frá Reykjavík. Bátarnir 16 komu í tveimur gámum til Akureyrar og voru þeir Tryggvi Heimisson, formaður Nökkva, og Ragnar Rúnar Svavarsson stjórnarmaður nýbúnir að opna gámana þegar Akureyri.net leit við í gær.

„Þetta eru nýjustu tækin fyrir keppni í einmenningsflokki, þar sem einn keppir í hverjum bát í fullorðinsflokki,“ segir Tryggvi. „Þróunin í plastefnum er mikil og þessir bátar eru mjög léttir.“

Keppendur á mótinu eru um 20, þar af liðlega helmingur útlendingar sem koma frá sjö löndum, Bandaríkjunum, Kanada og frá Evrópu. Æfingadagur verður á morgun, sunnudag, en keppni hefst á mánudagsmorgun.